Mikil íbúafjölgun er í Hveragerði eins og sjá má á öllum þeim byggingakrönum sem tróna yfir bænum og ný hús rísa upp eins og gorkúlur. En það eru ekki bara mannabústaðir sem verið er að byggja. Mikill metnaður hefur verið í gerð hænsnakofa og við Laufskóga búa trúlega fleiri hænur en í nokkurri annarri götu í bænum.

20-30 hænur, flestar af landnámshænsnakyni en nokkrar af franskri skrauthænuætt, una sér vel í bakgörðunum í Laufskógum. Sumar þeirra eru sérstaklega gæfar, koma hlaupandi þegar kallað er á þær og sitja rólegar á öxlum eiganda sinna. Aðrar eru hin mestu sköss og reka í burtu ketti, hænur og smábörn ef einhver vogar sér inn í þeirra garð.

Prinsessa Sigríðardóttir af landnámshænuætt, bjó fyrst í Laufskógum 29 en eftir mikið ósætti við eldri systur sínar flutti hún yfir í Laufskóga 34 þar sem fyrir bjuggu þrjú frönsk dverghænsni í kofa á annari hæð. Prinsessa (nú Þórhallsdóttir), tók fljótt stjórnina en var ekki alls sátt við húsakost sinn eða sambúð með dvergum. Nokkrum árum seinna flutti hún því sjálf og óboðin inn í nýjan hænsnakofa í húsi númer 36, til Frk Hænulínu og vinkvenna hennar. En Hænulína Ernudóttir á einmitt nöfnu í húsinu ská á móti, Hænulínu Hafsteinsdóttur sem varð eins árs í vikunni. Besta vinkona Prinsessu er hreinræktaður fjósaköttur sem heitir Ponsa og rekur hún alla óvelkomna ketti í burtu. Á góðviðrisdögum snæða þær saman kattamat og skála í vatni.

Prinsessa í matarboði

Nokkrum húsum neðar búa öldungar götunnar, Tina Turner, Brella og Kolfinna og lifa þær systur sína Lady GaGa, en þær elska að sofa hátt uppi í grenitrjám á sumrin. Kofinn þeirra er mikil listasmíð og skreyttur hátt og lágt með jólaljósum og allskonar skrautmunum. Nú eru komnar hænur í garðinn fyrir ofan og þær hafa því ráðið sér lífvörð sem heitir Dúni Helgason og kemur úr norska hernum, skógarköttur af stærstu gerð. Oftar en ekki þurfa bílar, reiðhjól og gangandi vegfarendur að stoppa og bíða meðan þessar heldri fiðruðu maddömmur kjaga í rólegheitum yfir götuna til að róta í rabbarbarabeði eða skella sér í sólbað.

Í sjóræningjaleik – Mínerva með Slaufu á öxlinni og Elíndís með Tunglsljós. Mynd: Bergljót Arnalds

Neðst í götunni búa Tunglsljós, Slaufa, Nótt og Dúfa Mínervuhænsn og eru þær sérstaklega gæfar og eru alveg sáttar að leyfa krökkunum að spranga um með sig á öxlunum.

Fleiri óþekktari hænur eru í götunni sem vildu ekki veita viðtal en má helstar nefna þær: Lillu Pönk, Anítu, Betu, Snúllu, Richard, Egghildi og Krummu. Ekki fer mikið fyrir karlpening enda eru hanar ekki leyfðir í þéttbýli. Hænurnar eru vinalegar og setja skemmtilegan blæ á götuna þegar þær spóka sig í sólinni, sitja uppi á grindverkum, róta í beðum og fá sér hænublund uppi í tré. Það er greinilega vor í lofti í Laufskógum.

Facebook ummæli