Allar deildir íþróttafélagsins Hamars kynntu starfsemi sína í Hamarshöllinni í síðustu viku. Vanalega hefur Hamarsdagurinn verði haldinn hátíðlegur með skemmtiatriðum, andlitsmálingu og allskonar sprelli en í ár var ákveðið að skella bara upp borðum og hver deild mætti með þjálfara og stjórn til að svara spurningum foreldra. Sérstaklega voru nýjir Hvergerðingar boðnir velkomnir að skoða Hamarshöllina og kynna sér hvað Hamar hefur upp á að bjóða fyrir unga sem aldna í vetur. Hægt var að spjalla við þjálfara og spyrja yfirstjórn Hamars spjörunum úr.
Hjá Hamri er hægt að æfa badminton, blak, körfubolta, fótbolta, fimleika og sund. Á hverju hausti hefst alltaf mikið púsluspil með fundum, tölvupóstum og símtölum milli deilda, þar sem reynt er eftir fremsta megni að greinar skarist ekki fyrir sama aldursbil og að gólftími skiptist jafnt á milli allra. Þetta er mikil undirbúningsvinna þegar á staðnum eru tvö íþróttahús, fótboltavellir, sundlaug og fjöldi barna og unglinga sem vilja æfa margar íþróttir. Tímatöflurnar fyrir haustið eru tilbúnar en gætu breyst eitthvað örlítið þegar líður á tímabilið.
Hér á Hamarsport, heimasíðu félagsins, má finna upplýsingar um hvað deildirnar ætla að bjóða upp á í vetur.





Sunddeildin mætti með stjórn og hressa iðkendur sem sögðu frá starfinu framundan

Facebook ummæli