Eldri Hvergerðingar muna eftir Versluninni Reykjafossi sem var að Breiðumörk 21, þar sem síðar var verslunin Hverakaup, Kjöt og kúnst og er nú kallað Hveraportið. Þar réði ríkjum Kristján Hólm Jónasson, eða Kristján í Reykjafossi eins og hann var iðulega kallaður og rak hann verslunina í áratugi. Í viðtali árið 2014 rifjaði Helga Baldursdóttir (f. 1937) upp verslun í Hveragerði og minntist sérstaklega á hversu Kristján var fjölskyldunni hjálplegur þegar lítið var um tekjur. Helga hefur orðið:

“Það var útibú frá Kaupfélagi Árnesinga og svo var Reykjafoss hjá Kristjáni Jónassyni en hann var nokkurs konar kaupmaðurinn á horninu. Ég verslaði oftar þar. Mér fannst ég fá fjölbreyttari vörur þar en stundum var hún kannski aðeins dýrari en engu sem mér fannst muna miðað við gæði. Um tíma var Kristján hreinlega lífgjafi okkar. Siggi var veikur og gat lítið unnið í um fimm ár. Kristján bauð okkur að við gætum borgað þegar við gætum og það gerðum við. Við hefðum ekki alltaf getað verslað ef hann hefði ekki hjálpað okkur á þennan hátt. Ég hef alltaf hugsað hlýlega til hans, hann var heiðursmaður.”

Reykjafoss var í Breiðumörk 21 eins og áður er getið en það hús ber nafnið Staður og er húsið byggt árið 1942. Var þar rekin verslunin Skemman en árið 1948 var verslunin Reykjafoss stofnuð og var hún rekin í húsinu til ársins 1981. Árið 1960 var verslunin Reykjafoss endurnýjuð og þótti verslunin nýtískuleg og glæsileg eins og sjá má í meðfylgjandi frétt úr Alþýðublaðinu. Verslunarstjórar Reykjafoss voru þá tveir, Kristján Hólm Jónasson og Ragnar G. Guðjónsson. Sjá má á meðfylgjandi myndum hversu glæsileg verslunin var þegar hún var endurnýjuð þetta ár.

Heimildir:
Alþýðublaðið 2. september 1960, bls. 7.
Bæjarblaðið í Hveragerði maí 2014, bls. 7.
Morgunblaðið 7. júní 1981, bls. 29.

Ljósmyndir frá Þjóðminjasafni Íslands: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2198694, https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2199589 og https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=2199583

Facebook ummæli