Síðastliðinn sunnudag fór 2. umferð Íslandsmeistaramótsins í RallyCross fram á aksturbraut Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar í Kapelluhrauni. Hvergerðingar áttu þar sinn fulltrúa í Andra Svavarssyni sem nú keppir á sínu öðru tímabili í 1000cc flokki í RallyCrossinu með keppnisliðinu Úlfurinn Racing. Liðið mætti með tvo bíla til leiks í flokkinn að þessu sinni en hinum var ekið af liðsstjóra Úlfsins, Guðbirni Má Ólafssyni. 

Andri byrjaði daginn í fjórða sæti á ráslínu eftir tímatökur en í RallyCross eru eknar fjórar umferðir í hverjum flokki og raðast keppendur á ráslínu í hverri umferð eftir samanlögðum árangri umferðanna á undan. Hver umferð samanstendur af fimm hringjum um brautina og hver keppandi þarf að fara í einu sinni í umferð gegnum svokallaðan jóker en það er ögn lengri leið um brautina. Allar umferðirnar gefa stig til Íslandsmeistara en úrslitaumferðin þó mest. 

Andri lauk fyrstu umferð í þriðja sæti og tók annað í annarri sem og í þriðju umferð en baráttan var slík að þegar Andri og hans helsti keppinautur og núverandi forystusauður í keppninni til Íslandsmeistara, Arnar Elí Gunnarsson, komu í mark í lok þriðju umferðar endaði Andri á hliðinni eftir létt samstuð þeirra gegnum endamarkið þar sem hvorugur ætlaði að gefa eftir. Við veltuna brotnaði hliðarrúða í farþegahurð í keppnisbíl Andra en þar sem það er ekki leyfilegt að keppa rúðulaus og aukarúða ekki með í för var brugðið á það ráð að rífa hurð af nálægum varahlutabíl og skipta komplett um hurð.

Andri ók svo eins og kóngur í úrslitaumferðinni og þegar Arnar, sem þá leiddi, ók sinn jóker hring á hring fjögur spýtti Andri heldur betur í og setti besta tíma dagsins í flokknum, 46.018 sekúndur. Einmitt þegar mest lá við. Arnar kom út úr jókernum hársbreidd fyrir aftan Andra og aðeins síðasti hringurinn eftir. Hringinn ók Andri af öryggi og sigldi sínum fyrsta sigri í RallyCrossinu í höfn við gríðarlegan fögnuð liðsfélaga sem og áhorfenda. 

Eftir tvær umferðir er Andri í þriðja sæti í Íslandsmeistaramótinu með 125 stig, 23 stigum á eftir Arnari.

Guðbjörn byrjaði daginn í 10. sæti á ráslínu en eftir þéttan og stigmagnaðan akstur endaði hann daginn í 5. sæti í sinni fyrstu keppni. Ekki amaleg frumraun það!

Næsta keppni fer fram sunnudaginn 27. júní.

Þau sem vilja fylgjast með ævintýrum Úlfsmanna eru hvött til að fylgja Úlfinum Racing á facebook og/eða Instagram.
Texti: Sighvatur Fannar Nathanaelsson

Myndir: instagram.com/teamulfurinn

Facebook ummæli