Sunnudaginn 27. júní fór þriðja umferð Íslandsmeistaramótsins í RallyCross fram á Akstursbraut Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar. Þar kepptu tveir Hvergerðingar, feðginin Andri Svavarsson og Kristbjörg Sunna Andradóttir, Andri í 1000cc flokki og Kristbjörg í Unglingaflokki. Þau keppa með keppnisliðinu Úlfurinn Racing en liðið á þrjá bíla í RallyCross þar sem liðsstjórinn Guðbjörn Már Ólafsson keppir í 1400cc flokki auk þess sem liðið keppir einnig í götubílaflokki torfærunnar með Óskar Jónsson undir stýri.

Í RallyCross eru eknar fjórar umferðir í hverjum flokki og raðast keppendur á ráslínu eftir tímatökutíma fyrir fyrstu umferð en svo eftir árangri umferðanna á undan. Hver umferð samanstendur af fimm hringjum um brautina og hver keppandi þarf að fara í einu sinni í umferð gegnum svokallaðan jóker en það er ögn lengri leið um brautina. Allar umferðirnar gefa stig til Íslandsmeistara en úrslitaumferðin þó mest. 

Dagurinn byrjaði ekki gæfulega en Kristbjörg varð fyrir því óláni þegar hún ætlaði að hefja tímatöku að gírkassinn í Yaris bíl hennar brotnaði. Keppnislið 99 Racing tóku málið í sínar hendur og skiptu kassanum út á leifturhraða svo Kristbjörg náði að setja tíma áður en tímatökum lauk. 

Áfram héldu þó kassar að brotna hjá Kristbjörgu en á lokahring fyrstu umferðar fékk hún stuð á afturhorn frá öðrum ökumanni sem sendi hana rakleiðis útaf og upp í dekkjavegg og nú var það vatnskassinn sem lét undan. Hún náði þó að komast í pitt þar sem skveraður var nýr vatnskassi í bílinn. Eftir þessar þrautagöngur gekk þó mun betur og eftir þéttan og markvisst betri akstur eftir því sem leið á keppnina, þar sem Kristbjörg hafði þegar upp var staðið skafið tæpar 10 sekúndur af tímatökutíma sínum, endaði hún í þrettánda sæti í sinni fyrstu keppni í hinum fjölmenna unglingaflokki.

Andri átti ljómandi dag og var í toppbaráttunni í öllum umferðum en keppnin í 1000cc flokki er gríðarhörð þar sem fimm ökumenn í flokknum eru allir til alls líklegir, alltaf! Dagurinn var með öllu áfallalaus, sem er óvanalegt hjá veltumeistaranum, og eftir að hafa klárað fyrstu umferð í 4. sæti og næstu tvær í öðru krækti Andri í sinn annan verðlaunapall í röð þegar hann endaði úrslitaumferðina í þriðja sæti á eftir Arnari Elí Gunnarssyni og Sævari Þór Snorrasyni sem vann sína fyrstu keppni í RallyCross. 

Nú þegar Íslandsmeistaramótið er hálfnað er Andri enn í þriðja sæti til Íslandsmeistara á eftir Hilmari Péturssyni og Arnari Elí sem leiðir mótið.

Guðbjörn mætti til leiks í 1400cc flokk á nýjum Honda Civic bíl hjá Úlfunum og kom sér örugglega fyrir í sjötta sæti en því hélt hann í öllum umferðum utan annarrar en þá tók hann fimmta sæti. Fínasta frumraun á bíl sem í raun hafði ekki verið ekið áður um brautina af Guðbirni enda klár korter í keppni. 

Næsta keppni Úlfanna er Egilsstaðatorfæran laugardaginn 3. júlí en næsta RallyCross keppni er sunnudaginn 18. júlí.

Úlfurinn Racing er á facebook og og highlight frá deginum má sjá á Instagrami Úlfsins.
Keppnina í heild má svo sjá á facebooksíðu Mótorsport.

Texti: Sighvatur Fannar Nathanaelsson

Facebook ummæli