Hvergerðingar héldu þjóðhátíðardaginn hátíðlegan að vanda, með hefðbundnu sniði.

Aðal dagskráin fór að mestu leiti fram í Lystigarðinum Fossflöt. Hófust hátíðarhöldin fyrir hádegi með því að Lúðrasveit Þorlákshafnar marseraði upp aðalgötu bæjarins í Lystigarðinn, spilandi skemmtileg lög. Fánaberar voru Skátafélagið Strókur.

Eftir hádegi hófst fjölskylduskemmtun í Lystigarðinum. Stórir sem smáir skemmtu sér hver á sinn hátt enda margt í boði. Björgvin Franz var kynnir ásamt því að skemmta með söng og töfrabrögðum. Lalli töframaður slóg í gegn hjá fólki á öllum aldri og Leikfélag Hveragerðis flutti lög úr verkinu Þjóðsaga til næsta bæjar. Vel var tekið undir þegar Sönghópurinn Tónafljóð flutti Disney söngleik. Margt annað var í boði, ratleikur fyrir fölskylduna, hoppukastalar og vinnustofur handverksfólks voru opnar. Einnig var börnum boðið á hestbak. Sundlaugarpartý fyrir fjölskylduna var haldið í Laugaskarði deginum áður, eða seinnipart dags þann 16. Júní.

Margir upprennandi töframenn prufuðu undraheima töfrana. Sumir stigu eitt skref til baka þegar Gilitrutt teygði sig fram af sviðinu. Nærvera skessunnar vandist þó ansi fjótt enda um  þjóðsögu að ræða. Einhverjum fannst hávaðinn helst til of mikill á meðan aðrir dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Svo voru þeir sem létu það nægja að fylgjast með úr fjarlægð og jafnvel knúsa sína nánustu eða bara vini sína.

Fleiri myndir má sjá á vefsíðunni helenastefansdottir.com í möppunni Mannlífið.

Þar sem um mannlífsmyndir er að ræða er ógerlegt að fá leyfi fyrir myndbirtingu hjá hverjum og einum. Ef einhver vill ekki vera með, endilega hafið samband og viðkomandi mynd verður fjarlægð af vefnum. Allt er þetta gert af  góðum hug og einungis sem krydd í tilveruna.

Myndir og skrif: Helena Stefánsdóttir

Facebook ummæli