Sundkona ársins 2020 er Snæfríður Sól Jórunnardóttir
Snæfríður Sól er 20 ára og syndir fyrir Álaborg í Danmörku. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2020, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ.

Snæfríður synti á sínum yngri árum í Hveragerði fyrir sundfélagið Hamar en flutti til Árósa þegar hún var 11 ára. Hún keppti á Olympíuleikum ungmenna sem haldnir voru í Buenos Aires 2018 og tók þátt í EM25 2019 og á HM50 2019.

Snæfríður Sól synti fyrir Arhus þar til í haust en þá fylgdi hún þjálfara sínum Birni Selvejer til Alaborgar þegar hann tók við starfi Eyleifs Jóhannessonar sem nú starfar sem yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands.

Þrátt fyrir miklar sóttvarnarðgerðir hefur Snæfríður stundað æfingar í Danmörku og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Danska meistaramótið fór fram í 25 laug nú í vikunni og þar tvíbætti Snæfríður Sól Íslandsmetið sitt í 200m skriðsundi um tvær sekúndur.

Snæfríður er góð fyrirmynd jafnt sem sundkona og utan laugar. Snæfríður er ung að árum og á bjarta framtíð fyrir sér. Næstu mánuði mun hún einbeita sér að því að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2021. 

Snæfríður er verðugur fulltrúi sundhreyfingarinnar og vel að viðurkenningunni komin. Við hjá SSÍ óskum Snæfríði innilega til hamingju með að vera valinn Sundkona ársins 2020.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir Mynd og frétt:Sundsamband Íslands

Facebook ummæli