Stóri fallegi stóllinn sem tekur á móti gestum í Lystigarðinum við Fossflöt hefur heldur betur slegið í gegn. Rauði liturinn sker sig vel úr grænum trjánum í bakgrunni og er stóllinn strax orðinn vinsæll myndatökustaður. Hugmyndina að stólnum á Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.

Bryndís lætur fara vel um sig í stólnum


„Ég sá svipaðan stól í Noregi fyrir nokkrum árum og hugsaði strax að það væri nú gaman að fá svona stól í bæinn okkar. Ég ræddi þessa hugmynd við meirihlutann í Hveragerði og þeim leist vel á og þá kom upp sú hugmynd um að gera þetta að samfélagsverkefni og fá félag eldri borgara til vinna verkið“ segir Bryndís.

Það að voru nokkrir gallvaskir herrar að nafni Guðjón Árnason, Sigurður Valur Magnússon, Jóhann Gunnarsson og Guðmundur Sveinbjörnsson sem tóku verkefnið að sér en Félag eldri borgara í Hveragerði fékk styrk frá Hveragerðisbæ fyrir verkið. Smiðirnir hittust einn dag í viku í smíðastofu grunnskólans og unnu jaft og þétt allan veturinn. Krakkarnir í skólanum fylgdust síðan spennt með ferlinu. Í hvert skipti sem þau mættu í smíðatíma þá var verkið komið lengra og stóllinn tók á sig mynd.

Þeir lögðu lokahönd á verkið rétt fyrir 17. júní og þá fór stóllinn í sprautun hjá Sveinbirni Inga Guðmundssyni eiganda Bílmálingar, og gaf hann sína vinnu til bæjarins.

Bryndís vill fá að koma eftirfarandi á framfæri: „Það var virkilega gaman að standa að svona jákvæðu verkefni með félagi eldri borgara og eigum við þeim bestu þakkir fyrir þessa völundarsmíð og hver veit nema þetta samstarf verði endurtekið einn daginn. Sömuleiðis væri gaman ef að lesendur Krummans myndu senda ritstjórn mynd af sér í stólnum á netfangið krumminn@krumminn.is til að safna myndum í skemmtilegt gallerí“.

Gott vinkonuspjall í kvöldsólinni. Mynd: Aldís Hafsteinsdóttir

Facebook ummæli