Það var ansi stór og strembin helgi hjá þeim í Úlfurinn Racing nú um liðna helgi en á laugardaginn kepptu þau í torfæru á Blönduósi og rallycross í Hafnarfirði á sunnudag. Liðið er eitt stærsta akstursíþróttalið landsins verandi með fjögur keppnistæki á sínum snærum en keppt var á þeim öllum um helgina.

Lagt var af stað á Blönduós kl 17 á föstudag og þau voru komin á torfærusvæðið um kvöldið. Þar stilltu þau upp í dumbungi og lögðumst svo til hvílu í liðsrútunni Úlfhildi. Fagur keppnisdagur rann svo upp eftir góðan nætursvefn en veðrið lék við keppendur og áhorfendur og þetta var einn besti veðurdagur sem þau sunnlendingarnir höfðu notið þetta svikasumarið.

Keppnin var gríðarhörð og stórskemmtileg bæði í sérútbúnum sem og í götubílaflokknum sem Úlfarnir keppa í. Líkt og í Egilsstaðatorfærunni óku bæði Óskar Jónsson og Guðbjörn Már Ólafsson Úlfinum þar sem eigendur götubíla virðast ragir við að mæta til keppni þetta sumarið en keppni fer aðeins fram ef minnst þrír ökumenn keppa. Úlfarnir tóku það ekki í mál að ekki yrði keppt og brugðu því á það ráð að skrá tvo ökumenn til leiks. Eftir hnífjafna baráttu gegnum hverja brautina á fætur annarri gat þetta farið á hvorn veginn sem var milli Óskars og Steingríms Bjarnasonar á bílnum Strumpinum þegar komið var að lokabraut. Keppnisskapið hljóp aðeins í Óskar en hann var staðráðinn í að koma Úlfinum eins hátt upp í snarbratt lokabarðið og mögulegt væri. Þegar í það var komið og pinninn í gólfinu sá Óskar sér til mikillar skelfingar að brautarstarfsmenn stóðu í lokahliðinu. Þegar brautarstarfsmennirnir áttuðu sig á því að Óskar stefndi beint í þá, þeim til ámóta skelfingar, forðuðu þeir sér á hlaupum en annar þeirra tognaði í hamaganginum. Óskar náði þó ekki upp í endahliðið en á leið sinni þangað fékk Óskar 60 refsistig og 230 stig fyrir lengd sem átti eftir að reynast örlagaríkt en Steingrímur fór aðeins styttra upp og fékk 220 fyrir lengd en refsilaust en aðeins munaði 41 stigi á þeim fyrir lokabrautina. 

Það leit því út fyrir að Steingrímur hefði haft sigur en þegar dómarar höfðu yfirfarið keppnina kom í ljós innsláttarvilla hjá stigaverði. Eftir leiðréttingu var ljóst að Óskar hafði náð í sinn annan sigur á ferlinum í þessari stórskemmtilegu Blönduóstorfæru en aðeins munaði 11 stigum á þeim Steingrími þegar upp var staðið og Guðbjörn endaði í þriðja sæti. Þá fékk Óskar einnig tilþrifaverðlaunin í götubílaflokki.

Úlfurinn ók allar brautir tvisvar og því tvöfalt álag á hann en það stóðst bíllinn með prýði og ekkert sem bendir til annars en að hann sé að mestu klár í Akranestorfæruna sem fer fram sunnudaginn 25. júlí.

Að torfærunni lokinni var brunað til Hveragerðis en þar biðu þrír rallycross bílar Úlfanna, klárir í keppni á sunnudeginum. Úlfinum var bakkað út úr Úlfhildi og Aygo-inum hans Andra ekið inn í staðinn og lagt af stað í Hafnarfjörð með hina tvo keppnisbílana á kerrum. Sirkusinn var mættur upp á rallycrossbraut Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar síðla kvölds og eftir góðan nætursvefn í Úlfhildi var annar keppnisdagur upp runninn.

Hveragerðissnótin Kristbjörg Sunna Andradóttir keppti sína aðra keppni í Unglingaflokki en að þessu sinni voru 13 unglingar mætt til leiks. Kristbjörg prófaði að keyra með svokallaðan spotter í eyrunum en í því hlutverki var Íris Brá, föðursystir hennar. Hlutverk spottara er að vera auka augu ökumanns utan brautar og miðla upplýsingum og gefa ráð til þess er ekur. Kristbjörg átti mjög flotta spretti og jók hraðann eftir því sem leið á keppnina og þær frænkur samstilltust. Hún var þó óheppin í úrslitunum en þar sneri hún bílnum tvisvar í sömu beygju sem varð til þess að hún endaði síðust eftir að hafa komið sér í fjórða sæti þegar best lét. En allt fer þetta í reynslubankann.

Andri Svavarsson, faðir Kristbjargar, átti áþekkan úrslitariðil og dóttir sín. Eftir flottan akstur í 1000cc flokki þar sem hann náði þriðja sæti í fyrstu umferð, sigraði í annarri og varð annar í þriðju sneri hann bílnum í úrslitaumferðinni í harðri baráttu við Arnar Elí Gunnarsson þegar farið var gegnum S-ið á fyrsta hring þar sem þeir leiddu kappaksturinn. Andri hrapaði við það niður í fimmta sæti á eftir Konrad Kromer og náði ekki fram úr honum sama hvað hann reyndi og fimmta sæti því raunin í úrslitaumferðinni. Í rallycross gefa þó allir riðlar stig til Íslandsmeistara og þar sem árangurinn fram að úrslitariðli var með ágætum heldur Andri þriðja sæti í keppninni til Íslandsmeistara.

Guðbjörn ók sína aðra keppni á Honda Civic bíl sínum í 1400cc flokki en þar voru fimm bílar skráðir. Guðbjörn endaði fyrstu umferð síðastur en tók þriðja sæti í annarri umferð. Því sæti sleppti hann ekki það sem eftir lifði keppni og augljóst mál að Guðbjörn og Civicinn eru að smella ljómandi vel saman eftir því sem þeir kynnast betur. Guðbjörn náði því bronsverðlaunum í tveimur akstursíþróttagreinum á einni helgi. Ekki amalegt það.

Heilt yfir frábær helgi og stórskemmtileg að sögn Úlfanna sjálfra. Næsta keppni Úlfurinn Racing er sem fyrr segir Akranestorfæran sunnudaginn 25. júlí en næsta RallyCross keppni er sunnudaginn 15. ágúst í Hafnarfirði.

Úlfurinn Racing er á facebook og highlight frá helginni má sjá á Instagrami Úlfsins. Endilega setjið like á kappana og fylgið þeim á Instagram.

Myndir og skrif: Sighvatur Fannar Nathanaelsson

Facebook ummæli