Í byrjun sumars var stelpunum í meistaraflokki Hamars í knattspyrnu spáð 9. sæti í 2. deild kvenna. Fyrirliði liðsins og baráttujaxlinn með mesta keppnisskapið, Dagný Rún Gísladóttir, sagði þá liðinu að ef þær lentu í 6. sæti eða ofar myndi hún láta húðflúra á sig merki Hamars. Meðspilarar hennar Hrefna Ósk og Elín Hrönn Jónsdætur tóku í sama streng lofuðu líka fá sér Hamarstattoo ef þær næðu þessum árangri. Og þó svo að lið Hamars væru nýliðarnir í deildinni, endaði liðið í 6. sæti í lok tímabils eftir frábæra frammistöðu og voru stelpurnar reglulega minntar á loforðið.

Og í gær var komið að skuldadögum. Hægt að fylgjast með þeim á instagram síðu liðsins þegar þær fengu sér Hamarsmerkið á vinstri handlegg. Myndirnar eru skjáskot af síðunni þeirra og við hvetjum Hvergerðinga að fylgjast þar með þessu duglega, hressa og skemmtilega liði. Og auðvitað að mæta svo í sumar á Grýluvöll og hvetja þær áfram.

Nú er spurningin í hvaða sæti liðið endar næsta sumar… og hvort það verði biðraðir af Hamarsleikmönnum og stuðningsfólki á húðflúrstofum landsins í lok tímabilsins?

Elín Hrönn, Dagný Rún og Hrefna Ósk – ÁFRAM HAMAR!

Facebook ummæli