Jóhanna Steinunn Sveinsdóttir var fædd 3. júlí 1920 að Skálanesi í Gufudalssveit, en fluttist að Laugalandi í Reykhólasveit 1921. Þar ólst hún upp fram að fermingu, en þá fluttist fjölskyldan Í Hvallátur á Breiðafirði og var öll hennar bernska í Austur- Barðastrandarsýslu, við sjó, í fjöru og í bátum. 

Steinunn fór að heiman um tvítugt, var m.a.vinnukona í Reykjavík og í kaupavinnu í Borgarfirðinum, þar sem hún kynntist manni sínum Sigurjóni Einarssyni, garðyrkumanni frá Tóftum í Stokkseyrarhreppi. Þau bjuggu saman að Kleppjárnsreykjum um árabil áður en þau fluttu til Hveragerðis árið 1950. Í Hveragerði bjuggu þau fyrsta árið á Hunkubökkum (nú Heiðmörk 31) , en frá hausti 1951 bjuggu þau að Varmá. Steinunn eignaðist 7 börn, sem eru Valborg Guðmundsdóttir, Ragna Rósberg Hauksdóttir, Hjalti, Ragnheiður Guðrún, Sveinn Bergmann, Sigríður og Pálína Gestrún Sigurjónsbörn. Valborg, Ragnheiður og Sigríður búa í Reykjavík og Sveinn og Pálína búa í Hveragerði, á Varmá 1 og 2. Hjalti lést af slysförum árið 1957, 9 ára gamall og Ragna lést árið 2018, hún bjó á Akranesi og lét eftir sig fjölda afkomenda. Sigurjón lést úr krabbameini árið 1955, Steinunn var bara 35 ára og voru þá 5 af börnunum undir 7 ára aldri.  

Steinunn fór þá að vinna fyrir heimilinu, hún vann í þvottahúsi Heilsuhælisins í áratug, jafnframt því að taka að sér ræstingar víða og aðstoð í veislum. Í rúm 25 ár starfaði hún að Dvalarheimilinu Ási, sem þá var kallað „Elliheimilið“ og þar var hún ráðskona í Ásbyrgi í rúm 20 ár. Fjölmargir hvergerðingar hafa starfað undir hennar stjórn í gegn um árin og minnast hennar með hlýju og virðingu.
Steinunn dvaldist sjálf síðustu árin á Dvalarheimilinu Ási, fyrst í Ásflöt 1 og síðar á hjúkrunarheimilinu, þar sem hún lést 11. apríl 2005.  Á báðum stöðum naut hún samvista við fyrrum samstarfskonur, sem voru vinkonur hennar. Þrátt fyrir lítil húsakynni á Varmá og stóra fjölskyldu var alltaf pláss fyrir ættingja og aðra gesti, bæði í mat og gistingu, því Steinunn hafði mikið að gefa af ást og umhyggju.

Steinunn var félagslynd, starfaði í kvenfélagi Hveragerði á fyrstu árum þess, hún tók virkan þátt í félagslífi samstarfsfólks síns og naut þess að ferðast bæði innan lands og utan.  Hún elskaði sjóinn og siglingar og  það var einmitt sigling á Rín, sem var hennar uppáhaldsferðalag, og svo mikið þótti henni til ferðalagsins koma, að hún endurtók siglinguna 15 árum síðar. Börn Steinunnar ætluðu í tilefni aldarafmælis, að heiðra minningu hennar nú í haust með þvi að fara í eina slíka siglingu, en því miður var þeirri ferð aflýst vegna heimsfaraldurs Covid 19.

Afkomendur Steinunnar eru fjölmargir, ömmubörnin eru 16, langömmubörnin eru 28 og langalangömmubörnin eru 8.  Á sjálfu aldarafmælinu þann 3. júlí sl. kom stór hluti afkomendanna saman á Varmá og gerðu sér glaðan dag. 
Í framhaldi af því var ákveðið að gefa Hveragerðisbæ bekk til minningar um yndislega ættmóður.  Þegar leitað var til bæjarins til að þiggja þessa gjöf, var því vel tekið og fyrir þakkað.  

Það er von allra í stórfjölskyldunni, að bekkurinn nýtist vel, veiti þreyttum hvíld og verði sem flestum til ánægju.
Bekkurinn er staðsettur í göngustígnum efst í brekkunni við borholuna í Klettahlíð.

Facebook ummæli