Í desember breytist Hveragerði úr blómabæ í jólabæ. Einhverjir byrja þó löngu fyrr að skreyta húsin sín og garða og var haldin keppni um best og mest skreyttu húsin í bænum. Fólk úr höfuðborginni er farið að koma í Hveragerði í jólabíltúr, fá sér ís og kakó og keyra um bæinn að skoða allar skreytingarnar sem sannarlega lýsa upp skammdegið.

Við Laufskóga 29 kúrir pínulítið rautt hús, Ljósuhúsið, en þar búa þau Sigríður Friðrikka Þórhallsdóttir og Helgi Kristmundsson ásamt dekurkettinum herra Dúna. Í byrjun desember var húsið orðið vel skreytt að utan en það sem fæstir vita er að trúlega er þetta eitt mest skreytta húsið að innan í Hveragerði. Húsið sem er aðeins um 50m2, rúmar þó örugglega yfir 450m2 af jólaskrauti. Sigga Rikka er mikið jólabarn og elskar að skreyta fyrir jólin og finnst allt jólaskraut fallegt. Hún hefur safnað skrautinu lengi héðan og þaðan og má sjá jólakarla og kerlingar, piparkökur, jólabjöllur, snjókort, kúlur, kerti, kort, og fleira og fleira.

Það er hlýlegt inni, kötturinn malar og Blue Christmas með Elvis hljómar í græjunum. Hver krókur og kimi er tækifæri til að jóla eitthvað upp. Veggir, hillur, skápar, gluggar, krúsir og könnur, allstaðar má finna eitthvað sem tengist jólunum. Og það eru örugglega ekki margir sem fara í sturtu með snjókörlum.  

Jólakarlarnir í sturtunni

Helgi er mikill handverksmaður og smíðar auðvitað allskonar jólaskraut handa Siggu sinni. Inni má sjá jólakúlur, jólatré og snjókarlakertastjaka svo eitthvað sé nefnt, sem hann hefur smíðað á vinnustofunni sinni. Helgi sér um skreytingarnar úti í garði og utan á húsinu og bíllinn fær bón og jólahúfur.

Jólaskrautið hans Helga fær sinn stað í loftinu
Jólalegasti bíllinn í Hveragerði

Sigga á ennþá eitt jólaskraut síðan hún var barn og er henni mjög kært og fær að vera í eldhúsglugganum þrátt fyrir að hafa brotnað fyrir löngu síðan.

Uppáhaldsjólaskrautið en jólasveinninn á sleðanum er rúmlega 60 ára gamall.

Hún á tvær eftirlíkingar af kórónu Englandsdrottningar sem búið er að breyta í jólakúlur og henni finnst það skraut vera það sérstakasta af öllu sem hún á, eftir safnaheimsóknir í London fyrir nokkrum árum síðan.

Sigga með Kórónurnar frá Englandi

Svo byrjar ballið þegar þarf að pakka öllu saman aftur eftir jólin. Siggu finnst það ekkert mál hún byrjar að týna þetta smám saman niður eftir áramótin og fara allir kassarnir aftur upp á háaloft. Svo auðvitað finnur hún alltaf einn og einn jólaálf hér og þar fram í janúar/febrúar en það finnst henni bara gaman.

Facebook ummæli