Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sundkona úr Hamri í Hveragerði, verður eina konan sem keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Tokyo. Snæfríður sem nú æfir í Álaborg í Danmörku, hóf sundferil sinn í Laugaskarði í Hveragerði hjá Sunddeild Hamars og var strax tekið eftir staðfestu og ákveðni hennar í greininni. Hún mætti alltaf fyrst á morgnana, þó það væri helgi og alveg sama hvernig viðraði og kvartaði aldrei og var greinilegt að hún ætlaði sér að ná langt.
Snæfríður fékk úthlutað kvótasæti í sundkeppni Ólympíuleikanna þar sem hún mun keppa í bæði 100 metra og 200 metra skriðsundi en hún náði B-lágmarki fyrir leikana í mars á þessu ári. Snæfríður Sól syndir í undanrásum í 200 metra skriðsundi 26. júlí og undanrásum í 100 metra skriðsundi 28. júlí. Þetta eru hennar fyrstu Ólympíuleikar og örugglega ekki þeir síðustu.
Að öðlast rétt til þátttöku í Ólympíuleikum er mikið afrek og eru Hvergerðingar skiljanlega að springa úr stolti. Það er ekki sjálfgefið að svona lítið íþróttafélag státi af afreksfólki sem fær að keppa við þau allra bestu í heiminum. Snæfríður er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og sundfólk framtíðarinnar og óskum við henni öll góðs gengis í Japan.

Facebook ummæli