Undanfarna þrjá morgna hef ég kvatt dóttur mína í forstofunni og séð á eftir henni ganga að skólabílnum, dyrnar opnast, hún gengur inn, bíllinn snýr við og fer. Ég má ekki vera úti á tröppum og veifa bless: ógreiddur og með fyrsta kaffibolla dagsins í hönd, það er vandræðalegt skilst mér og ég treysti samfélagslæsi hennar og félagsfærni, hlýði því.

Mikil breyting á högum barns nefnilega að skipta um skóla, jafnvel þó farið sé úr góðum skóla með góðu fólki í annan góðan skóla sem líka er fullur af góðu fólki, ég þekki þetta af eigin raun. Skólinn er auðvitað vinnustaður barnanna, þau eru ekki geymd þar á meðan foreldrarnir vinna heldur ganga að þéttri dagskrá og alveg eins og á vinnustöðum foreldra þeirra er ætlast til að þau standi sig vel. Félagslegi þátturinn er samtvinnaður vinnunni hjá þeim, fólk er misjafnlega lipurt í samskiptum, sumum reynist það létt verk að umgangast aðra og líður vel í sínum hópi, aðlagast framandi aðstæðum prýðilega, aðrir ganga plankann með hnút í maga hvern einasta dag. Hugur minn er oft hjá þeim.

Nú tek ég fram að mín skólaganga var alls ekki nein þrautaganga, ég reyndi að skemmta mér eins og hægt var, en í spjalli við varðeldinn áratugum seinna kemur í ljós það sem mann grunaði stundum en skildi kannski ekki alveg þá, að sumir félaga minna, bæði strákar og stelpur liðu fyrir hvern dag í skólanum, ekki vegna námsins, heldur samferðafólksins. Ég óska þess af heilum hug að skólabörn dagsins í dag og síðar þurfi ekki að kvíða samverunni með vinnufélögum sínum, heldur finni til vellíðunar og öryggis í skólanum og ekki síst: skólabílnum. Kannski er ekkert vitlaust að foreldrar spyrji börnin að því hvernig gangi á daginn? Er einhverjum strítt? Líður einhverjum illa? Það er ekkert víst að þau vilji ræða þetta, en fræinu er sáð, það er mikilvægt.

Fyrir framan blokk í Novyy Urengoy í Rússlandi stendur þessi Sahara- sand litaði jeppi og fyrir þá sem ekki þekkja er tegundarheitið UAZ 452, rússarnir nota gælunafnið: “Bukhanka” sem þýðir brauðhleifur. Í minni æsku hétu þetta frambyggðir Rússajeppar á íslensku og voru upphaflega hergögn, komu til Íslands í skiptum fyrir saltsíld og nýttust vel. Í svona bifreið hef ég setið marga kílómetra: á björtum haustmorgnum, í þoku, í slagveðursrigningu með drullugar hliðarrúður, í slyddu, í snjókomu, í skafrenningi við undirleik fjögurra snjókeðja og urrandi Perkins dieselvélar. Í vorleysingum og á sólríkum seinnipörtum; svona var skólabíllinn og Óli á Núpi ók af öryggi og þolinmæði, stundum Valdi tvíburabróðir hans. Aldrei neitt vesen held ég, þetta bara gekk svona ár eftir ár, en mínar minningar endurspegla ekkert endilega raunveruleikann, þar er allt í rósrauðum bjarma.

Góðar skólabílastundir.

Facebook ummæli