Janúar er mánuðurinn þar sem margir ætla að breyta um lífsstíl og áramótaheitin öll í takt við það. Meiri hreyfing, borða hollt, fara fyrr að sofa, taka til í geymslunni, halda dagbók og fleira og fleira sem á víst að gera lífið betra (undirrituð hefur strengt sama áramótaheitið og haldið það í 35 ár en það er að skipta um klósettrúllu þegar hún klárast). Margir ætla að nota þetta ár og ganga á fjöll og við hérna í Hveragerði erum svo heppin að hafa alla þessa dásamlegu náttúru og fjöll í bakgarðinum hjá okkur.

Það má segja að ein vinsælasta útivist Hvergerðinga um þessar mundir sé að ganga upp að útsýnisskífunni í gömlu Kömbunum. Flestir kalla þetta að ganga uppá Skífu. Skífan, eða hringsjáin eins og hún er einnig kölluð var reist sumarið 1951 af Ferðafélagi Íslands, til að auðvelda fólki að læra nöfn fjalla og annarra kennileita.

Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands

Það líður ekki sá dagur að einhver sé búinn að ganga, hlaupa eða hjóla upp að skífunni og stundum oftar en einu sinni sama daginn. Það væri gaman og fróðlegt ef þarna væri gestabók, því árið 2020 er trúlega árið sem hefði verið metár í gönguferðunum upp gömlu Kambana.

Skífan er farin að láta töluvert á sjá síðan myndin fyrir ofan var tekin við vígslu hennar. Það þyrfti virkilega að laga hana áður en hún verður veðri og vindum að bráð. Laga steypuna, pússa brassið upp og setja nýjan prjón í miðjuna en hann er löngu brotinn.

Ég tók nokkrar góðar fjallageitur tali sem hafa farið fleiri ferðir þangað upp á síðasta ári en við flest höfum farið í heildina og afhverju þau fara þessa gönguleið aftur og aftur og aftur.


Kolbrún með nýja göngufélagann

Kolbrún Vilhjálmsdóttir byrjaði árið 2020 með því að ætla sér 20 ferðir upp að Skífu á árinu.
„En svo kom Covid og þá var ég löngu komin með 20 ferðir svo ég ákvað að ég gæti allt eins farið 100 ferðir. Ég bý líka á svo góðum stað og það er svo þægilegt að fara bara beint út og labba af stað. Ég hef farið í öllum veðrum en bestu ferðirnar voru með hundinum mínum Koli, sem fór með mér 62 ferðir en dó svo í sumar. En ég er komin með annan hund sem verður þjálfaður í fjallgöngur“.

Ertu með svipuð markmið á nýju ári?
„Ég er búin að setja mér markmið að fara 100 km í hverjum mánuði þetta árið. Ég ákvað að festa mig ekki við neina sérstaka leið þó Skífan verði farin reglulega áfram“.


Vorið er komið, of heitt fyrir úlpu. Hallgrímur við skífuna í 8. apríl 2020

Hallgrímur Óskarsson setti sér markmið að fara 100 ferðir upp að Skífu á síðasta ári en hann hafði svo gaman af þessu að hann endaði í 224 ferðum.
„ Ég valdi mína Skífu-áskorun af því að ferð upp á Skífu sameinar allt sem góð líkamsrækt þarf að hafa. Bratt upp, sem eykur þol. Líkamsrækt í útilofti – gott súrefni. Frábært útsýni sem er aldrei eins og svo er líka gott að það er hægt að stjórna hraðanum, bæði labba eða hlaupa eftir því sem maður vill hverju sinni. Einn kostur er svo til viðbótar en það er að taka 2-3 ferðir saman í einu sem er þá tveggja tíma líkamsrækt og góður pakki“.

4. apríl

Er einhver ferð eftirminnilegri en önnur?
„Ætli að ferðin 4. apríl sé ekki minnisstæðust – þá var aftakaveður um allt land og flestir vegir lokaðir. Blindbylur var og ofankoma svakaleg og rörið undir Kambavegin yfirfullt af snjó og ekki hægt að komast í gegn. Skyggnið var svo lélegt að um tíma sá ég ekki niður á gönguskóna mína vegna blindhríðar. Versta foráttuveður ársins og uppi á toppi villtist ég, vissi hreinlega ekki hvar ég var. Komst þá á endanum niður aftur og heim. Yfirleitt er samt ágætt veður á gönguleiðinni upp að Skífu, enda er leiðin að miklu leyti í skjóli“.

Á að slá metið 2021?
„Varðandi 2021 þá ætla ég að halda áfram og stækka markmiðið, fara kannski 250 eða 300 ferðir. Reyndar sé ég fram á að vera fleiri daga í Reykjavík eða jafnvel enn lengra frá Skífunni á þessu ári og þá daga ætla ég að taka „Skífu-ígildis-ferðir“ þegar ég er ekki á svæðinu en það getur verið útihlaup eða jafnvel bara þrekstigi inni ef ekki vill betur. Reyna jafnvel að ná 365 ferðum á árinu, þá bæði Skífuferðum og Skífu-ígildisferðum fyrir þá daga þegar ég er ekki á svæðinu. Sjáum til hvernig það gengur. Þarna er ég í og með að fara eftir líkamsræktarspeki Birnu ömmu sem hafði þá einu reglu í líkamsrækt að vera móð í 40 mín á hverjum degi. Alveg sama hver hreyfingin er, hafa hana sem fjölbreyttasta, en reyna á hjartað í 40 mín á hverju degi. Þarf ekki að vera lafmóður, bara móður. Svo hefði ég gaman að ná að kynnast hálendinu betur þegar fer að hlýna og ganga á nokkur fögur fjöll þegar vel viðrar. Hálendið er hér í túnfætinum, aðeins eins og hálfs tíma akstur upp í Hrauneyjar og þaðan bíða okkar helstu fjallaleiðir. Freistandi að kanna þessa slóða betur og ganga á nokkur þekkt útsýnisfjöll í leiðinni“.


Bugun eftir 20km labb úr Gufudal og gleymdi nesti

Sigrún Árnadóttir er morgungönguhani og ef þarna væri gestabók þá væri nafnið hennar og Jónasar mannsins hennar trúlega alltaf fyrst á blaði.
„Ég fer reyndar ekki alltaf á morgnana en gerði það daglega í haust fyrir vinnu. Ástæðan er sú að þetta er svo rosalega góð hreyfing fyrir þol, rass og geð. Ekki endilega í þessari röð. Núna fer ég daglega, stundum með Jónasi og þá spjöllum við alla leiðina, þó gaspra ég meira, enda þolið orðið stórkostlegt“.

Sigrún og Jónas í uppáhaldsveðrinu

Sigrún veit ekki hvað ferðirnar eru margar en stundum segist hún hafa gleymt sér og farið tvisvar á dag.
„Uppáhaldsferðirnar eru þegar það er brjálað veður og helst varla stætt. Blindbylur er afskaplega heillandi en ég fer þó alltaf varlega og læt vita af mér. Markmið næsta árs er að ganga daglega en stundum mun ég þó svindla með göngum upp í heita læk eða á einhver fjöll, sjáum til. Munum að njóta uppi, taka æfingar, anda og þakka svo fyrir þetta geggjaða bæjarstæði sem Hveragerði er“.


Ragnheiður og Sigurður á Jakobsveginum 2019

Skífugöngumetið á árinu á þó væntanlega Sigurður Jakobsson sem fór upp 250 ferðir árinu.
Sigurður og Ragnheiður Þórarinsdóttir kona hans, byrjuðu að stunda gönguferðir árið 2001 og nota Kambaleiðina til að halda við gönguforminu en þau eru miklir göngugarpar og hafa meðal annars gengið Jakobsveginn sex sinnum. En sú leið eru um 750 – 800 km löng og alls ekki auðveld yfirferðar og er algengasta leiðin frá Jean Pied de Port í Frakklandi til Santiago de Compostela á Spáni. Sigurður var ekki viss hvort hann gæti gengið allan Jakobsveginn þegar þau skipulögðu fyrstu ferðina, þar sem hann er slæmur í baki. Þau fóru því leiðina í tveimur hlutum, og fóru sem sagt 500 km í fyrstu ferðinni. Síðan hefur ekki verið aftur snúið.

Ragnheiður fór 110 sinnum upp að skífunni á síðasta ári og segjast þau alltaf ganga aðeins lengra en bara upp að brún og leggja stein og góðar hugsanir í vörður sem verða á vegi þeirra í göngunum.
Sigurður er í kór og þar sem allt kórastarf lagðist meira og minna af á árinu varð hann að fylla upp í kórtímann og segist bara hafa gefið í, í gönguferðunum í staðinn. „ Þegar ég sá að það vantaði bara 5 skipti í 250 ferðir á árinu ákvað ég að fara þrjár ferðir upp að Skífu 30. desember og svo tvær á gamlársdag“.

Sigurður segir að fyrst þegar þau byrjuðu að ganga upp gamla Kambaveginn voru þau yfirleitt ein á ferð og mættu kannski einni og einni hræðu á leiðinni. En að það sé mjög gaman að sjá aukninguna sem hefur orðið á þessari leið og í dag eru þau sjaldnast ein á göngu. Á gamlársdag og nýársdag var varla þverfótað þarna fyrir fólki á leið upp og niður. „Það eru ómetanleg lífsgæði að geta gengið svona beint út í náttúruna“, segir Sigurður að lokum og það eru sko orð að sönnu.

Hugleiðsla dagsins
Mynd: Sigrún Árnadóttir
Sólarupprás á gamlársdag 2020
Mynd: Hrund
Hjólað upp.
Mynd: Hrund
Gleðilegt Skífuár
Mynd: Hrund
Mynd: Hulda Bergrós
Ég sjálf alveg sprungin en hlakka til að bruna niður

Skrif: Hrund Guðmundsdóttir
Heimildir: Söguferðir í Hveragerði

Forsíðumynd: Morgunbollinn – Sigrún Árnadóttir

Facebook ummæli