Um margra ára skeið hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir skemmtiferð að áliðnu sumri. Á þessum óvissutímum er varla grundvöllur fyrir rútuferð en ákveðið hefur verið að standa fyrir fræðslu- og skemmtiferð samt sem áður.

Skipulagið verður þannig að hver og einn kemur á einkabíl og tekur með sér farþega sem treysta sér til að ferðast saman. Um að gera að taka með nesti til að halda uppi orku til útivistar og fræðslu.

Dagskrá
Kl. 10:30 Kjarr í Ölfusi. Þar ætlar Helga Ragna Pálsdóttir að taka á móti okkur og sýna útsvæðin og ræktunarreitina. Helga er einn farsælasti framleiðandi landsins á trjám og runnum og án efa fróðlegt að heyra hana segja frá starfi sínu.
Kjarr er neðan við þjóðveg 1 undir Ingólfsfjalli, beygt til hægri beint á móti námuveginum, ekið stuttan spöl niður afleggjarann og beygt til hægri þar sem er skilti sem vísar á bæinn.

Kl. 12:00 Hellisskógur. Skógræktarfélag Selfoss. . Björgvin Eggertsson skógfræðingur ætlar að taka á móti okkur og segja frá starfsemi Skógræktarfélags Selfoss.
Frá Kjarri er ekið í átt að Selfossi og eini vegurinn til vinstri milli Olís og Ölfusárbrúar valinn (Ártún). Ekið er eftir Ártúni og í gegnum byggðina og áfram meðfram Ölfusá fram hjá skilti Skógræktarfélag Selfoss, fljótlega greinist vegur meðfram ánni eða beint inn í skóg. Veljum veginn inn í skóg og leggjum á bílaplaninu þar rétt fyrir innan.
Nestið borðað á hentugum stað.

Kl. 14:00 Snæfoksstaðir í Grímsnesi. Starfsstöð Skógræktarfélags Árnesinga sem er með skógrækt og ýmsan rekstur tengdum skógarhöggi og viðarnytjum. Björgvin ætlar að hitta okkur við skemmuna og segja frá starfseminni.
Ef viðrar er hægt að taka sér gönguferð um skóginn, huga að sveppum og berjum, allt eftir því hve áhuginn er mikill. Annars getur fólk hugað að heimferð eftir aðstæðum.
Til að komast að Snæfoksstöðum er ekið upp Biskupstungnabraut fram hjá söluskálanum í Þrastarlundi og áfram fram hjá afleggjara sem liggur að Sogs virkjununum og Þingvöllum. Áfram upp Grímsnesið, vegurinn liggur upp brekku og nokkur hundruð metrum lengra er skilti á hægri hönd sem á stendur Snæfoksstaðir og Vaðnes (ef að þið akið of langt komið þið að Kerinu á hægri hönd og snúið þá við). Beygið inn þann afleggjara og keyrið aðeins 200 metra og beygið þá til hægri gegnum aflagt hlið þar sem er líka er skilti sem vísar á Snæfoksstaði. Ekið áfram þennan veg tæpa 2 km og þá er ekið gegnum hlið með hliðslá rauðri og hvítri sem stendur upp í loftið. Farið gegnum hliðið og strax til hægri til að komast að skemmunni þar sem hægt er að leggja.

Ferðanefndin Guðrún Þórðardóttir og Aldís Hafsteinsdóttir

Hægt að hafa samband í s. 8921094 eða með skilaboðum hér á facebook síðu Skógræktarfélags Hveragerðis.

Facebook viðburður 

Facebook ummæli