Í dag tilkynnti skólastjóri Grunnskólans í Hveragerði að eftir helgina verður skólahald með breyttum hætti og takmörkunum. Það var því ánægjulegt að síðasti dagurinn fyrir þessar skrítnu breytingar og óvissu, var svo sannarlega fjörugur og skemmtilegur, og ekki síst núna þar sem börnin fá ekki að halda venjulega hrekkjavöku þetta árið. 
Starfsfólk skólans var búið að skreyta skólann hátt og lágt og klæða sig upp í sitt allra fínasta og hræðilegasta púss. Þannig tóku þau á móti börnunum sem mættu sömuleiðis sem allskonar furðuverur í skólann. Margir voru langt fram á kvöld að sauma og græja búninga eða vöknuðu súpersnemma. 
Bekkirnir fengu fræðslu um Halloween, fóru í allskonar sprell í íþróttahúsinu og tóku þátt í spurningarkeppni. Börninn fengu að hafa með sér sparinesti, horfa á bíó og Kjörís bauð svo öllum upp á ís. Heyrðist víst víða að þetta væri skemmtilegasti skóladagur frá upphafi. 
Myndirnar tala sínu máli en þær eru af starfsfólki GÍH sem á þakkir skilið fyrir að gera þennan dag svona eftirminnilegan og skemmtilegan. 

Facebook ummæli