Filippus Mountbatten er sestur í blómabrekkuna og nýtur kannski grískrar vorsólar eins og í æsku, ég held að meiningin sé að menn hafi sjálfræði um skemmtidagskrá þegar þar er komið sögu. Þrátt fyrir að tengdafjölskyldan hafi klínt á hann titlinum “erkihertogi af Edinborg” ásamt fleiru hef ég enga trú á að hann sé klæddur viðhafnarbúningi Skota þarna á köflóttu ullarteppinu, alla vega ekki neðan mittis. Í ferðatuðrunni eru örugglega nokkrir gulir Boddington´s baukar, þó að sá drykkur hafi ekki verið bruggaður síðan 2012 og töfrar sumarlandsins sjá líka til þess að kjarnhiti svaladrykksins er ellefu gráður á selsíus, enda bara villimenn sem lepja ískaldan bjór. Neðan blómabrekkunnar stendur yfir kappakstur hestvagna og Filippus nýtur dagsins. Í friði, sem er örugglega heitasta ósk þess sem alla ævi hefur verið snattað til og frá eftir duttlungum annarra.

Þetta átti nú ekki að verða minningargrein um kallgreyið, en Filippus mátti þola ýmislegt á langri ævi, fæst af því reyndar líkamlegt harðræði, en til að stikla á stóru var hann flóttamaður frá Grikklandi sem sendur var í breska sjóherinn, látinn giftast frænku sinni og píndur til að búa heima hjá henni. Meira að segja Íslendingar, sem honum líkaði ágætlega við, kölluðu Filippus aldrei prins, heldur: drottningarmann.

Og svo lengi lifði Filippus að hann náði að skipuleggja ýmislegt varðandi sína eigin útför og virðist hafa fengið sjálfræði með einhver atriði varðandi athöfnina, til dæmis verður líkamsleifum hans ekið í sérútbúinni bifreið síðasta spölinn, bifreið sem prinsinn hannaði að nokkru leyti sjálfur að sögn. Fyrir áhugafólk um bifreiðar skal upplýst að líkbíll Filippusar drottningarmanns er Land Rover Defender TD5 130, svokallaður Gun Carrier, framleiddur fyrir breska herinn í Solihull á Englandi árið 2003, reyndar er ekki um einn bíl að ræða, heldur tvo og er annar til vara ef hinn skyldi bila. Í huga flestra eru Land Rover verksmiðjurnar og Filippus prins algjörlega bresk fyrirbæri, en eins og telaufin í bolla breskrar hefðarfrúr koma erlendis frá var prinsinn grískrar og danskrar ættar og árið 2003 var hið alþjóðlega Ford fyrirtæki orðið eigandi Land Rover og bresk bílaframleiðsla eiginlega að engu orðin, bresk menning er nefnilega fjölþjóðleg og kannski einmitt þess vegna svo áhugaverð.

Í dag, seytjánda apríl verður Filippus drottningarmaður borinn til grafar og klukkan 12:30 hefst bein útsending hjá RUV 2 frá athöfninni. Ég hef sjálfsagt einhverntíma fylgst með jafn langdregnu sjónvarpsefni um dagana, en nenni nú ekki að sitja yfir því. Kannski nær einhver góður ljósmyndari skoti fyrir mig af Land Róvernum malla í lága drifinu með Filippus prins síðasta spölinn, en mikið vona ég að einhver duglegur bóndi eða verktaki geti svo keypt bílinn að því loknu og ferjað í honum girðingastaura, ullarbala, mótatimbur og lífgimbrar, það yrði góður og fallegur endir á skrýtinni sögu.

Góðar stundir.

Meðfylgjandi mynd er af heimasíðu Bristolpost


Facebook ummæli