Kolsvartamyrkur úti, klukkan er sjöþrjátíu þann tuttugasta og sjöunda nóvember tuttuguhundruð og tuttugu. Svartur föstudagur og pestin liggur í leyni, því þetta er pestarárið, árið sem át ferðamannaiðnaðinn og skeit skuldasúpu yfir fjölda fólks. Árið sem pestin lokaði skólum, sundlaugum, bönkum, börum og ballstöðum. Traustir fylgihnettir siðmenningar eins og eiturlyf, lús og njálgur eru orðin af skornum skammti, sama gildir um kvef og klamidíu skilst mér. Margir neyðast til að halda sig heima, þeir sem eru heppnir og halda vinnunni geta sumir unnið þar, sitja við tölvur og skjöl á köflóttum náttbuxum og drekka uppáhelling. „Inni er bjart við yl og söng” orti Þórður Kárason frá Litla- Fljóti, glaður og reifur með góðum félögum við gangnaslark á öræfum en sópar svo partíinu af borðum í síðustu línunni og fyllir glösin að nýju með alvöru lífsins: „en úti er svartamyrkur”.

Úti er svartamyrkur. Við búum vonandi öll svo vel á þessu skeri að þurfa ekki að hleypa því inn; rafmagn, hiti og internet létta lífið. Túrbínur syngja á öræfum, það hvín í möstrum og línum, vatnið steymir eftir niðurgröfnum leiðslum bæði heitt og kalt; flokkar vaskra manna og kvenna sjá um að halda því svo. Það er hollt og gott að taka aðeins þátt í slíkum störfum, ég þekki það af eigin skinni, þetta eru ekki sjálfsprottin fríðindi.

Úti er svartur föstudagur og freistingarnar glóa í myrkrinu: tilboð! Afsláttur! Ótrúleg kjör! Ég veit um frábært ráð til að græða peninga á svarta föstudeginum og deili því fús með öllum sem heyra vilja og hinum líka: Láttu þetta rusl bara eiga sig og notaðu aurana í næsta mánuði, það verða líka freistingar þá.
Góðar stundir.

Facebook ummæli