Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.

Svæðið sem um er að ræða nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt þessu svæði undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu af ráði.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings.

Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opin eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.

Ef fólk verður vart við gróðurelda á strax að hringja í 112.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er hægt að nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr hættu af gróðureldum, einnig á grodureldar.is/. Sjá meðferð eld á grónu svæði

á Suðurlandi nær óvissustigið yfir svæðið frá Eyjafjöllum og vestur að mörkum umdæmisins. Ástandið er heldur alvarlegra í Árnessýslu en á öðrum stöðum en full ástæða til að fara varlega. Samkvæmt veðurspá er engin úrkoma á næstunni og útlit fyrir svipað veðurfar næstu 7 til 10 dagana.

Facebook ummæli