Allskonar furðuverur voru á ferli í dag milli kl. 13 og 17 alla leið frá Grunnskólanum og niður í Sunnumörk. Þó að ennþá séu fúlar en nauðsynlegar takmarkanir í gildi vegna Covid-19 tóku nokkur fyrirtæki í Hveragerði á móti syngjandi börnum í dag. Sóttvarna var að sjálfsögðu gætt allsstaðar og var gaman að sjá hvað bærinn varð litríkur þessa stuttu stund og heyra mátti kátínuna og sönginn langt út í sveit.

Þarna mátti sjá frægar poppstjörnur, skrímsli, ofurhetjur og illmenni, prinsessur og smábörn, eldri borgara, geimverur, og galdramenn o.fl. o.fl. Sumir búningarnir voru sérsaumaðir, litaðir, smíðaðir og föndraðir og sást að hér búa greinilega margir listamenn með hugmyndaflugið í lagi.


Það voru ekki bara börnin sem voru skrautleg því í grunnskólanum tók starfsfólkið sig til og skartaði sínu fínasta og skrítnasta eins og myndirnar sýna.


Ritsjóri Krummans var alein á vinnustofunni en skellti sér nú samt í búning í tilefni dagsins.

Facebook ummæli