Ég henti útvarpstækinu mínu í ruslið, hvorki í ofsa og bræði né sturlun og æði, bara henti því. Okkar samfélagi er lokið.
Þetta tæki hefur í tólf eða þrettán ár staðið uppi á hillu í gömlum vinnuskúr hjá mér, og merkilegt nokk: nánast hreint allan tímann. Það kemur ekki til af góðu: ég er alltaf káfandi á því. Ævinlega að færa það til að beina loftnetinu á mismunandi hátt út í kosmósinn. Í nokkur ár hefur voldug kúla af álpappír skreytt loftnetsendann. Hvers vegna allt þetta umstang kynni einhver að spyrja? Jú, hér eru mjög slæm útvarpsskilyrði.

Nei, þetta er ekki rétt hjá mér; ónákvæmt, hér eru slæm skilyrði til hlustunar á útvarpsrásina sem ég vil heyra: Rás íslenska ríkisútvarpsins númer eitt, hér heyrist fullkomlega í Útvarpi Sögu, Lindinni, Bylgjunni og gott ef ekki Útvarpi Kántrýbæjar, semsagt, þær rásir sem mér þykja leiðinlegar nást mjög vel.

Markaðsrannsóknir benda reyndar til þess að ég ætti að hafa gaman af Bylgjunni, með frávikum kannski Sögu eða Lindinni, ég er fæddur nítjánhundruð sjötíu og eitt (seint á árinu nb.) og ætti því að lenda þar á kúrvunni.

Stefán Helgason vinur minn hefur reist risavaxin samskiptamöstur á nánast öllum fjallatoppum og útkjálkum Íslands. Oft hefur þurft að beita brögðum, draga trukka upp fjöll með jarðýtum, hanga í mannkörfu í svo mörgum sekúndumetrum að fingur, tær og fermingarbróðir duga ekki til að telja þá; allt til að koma okkur skerbyggjum í samband hvort við annað gegnum síma eða útvarp, Stebba verður seint fullþakkað fyrir það streð. Aldrei hefur neinn úr mastrabransanum beðið hann að setja upp samskiptamastur hérna í Flóanum og verður trúlega ekki í bráð, við erum nefnilega með ljósleiðara og væfæ, fjegur og bráðum fimm G. Hlustum bara á poddkast í æfóni og stillum á rúvappið á heila tímanum til að fá fréttir. Sjálfur er ég minn útvarpsstjóri og ræð hvenær ég hlusta á KK reka um heiminn á Æðruleysinu, hvenær ég hlusta á orð um bækur, Veru eða pabba hennar hann Illuga segja mér áhugaverðar sögur. Eins get ég valið að láta símann streyma dagskrá rásar eitt beint í heyrnartólin, til dæmis ef ég er með límkítti eða koppafeiti á höndunum og hef ekki tök eða nennu til að pota í skjáinn. Nútíminn er ekki trunta, mér finnst þetta frábært og hlaðvörpin eru góð viðbót.
Og já, ég veit alveg að raftæki og tröllaskeinir eiga ekki að fara í sama ruslapoka, þetta verður jústerað á flokkunarstað.

Vissulega henti ég ekki öllum viðtækjum heimilisins, í gamla ferðatrukknum mínum er gamalt batterísdrifið Filips, þannig að ég get tæknilega séð tekið á móti neyðarsendingum Almannavarna ef að allt skyldi nú fara tits up hérna með eldgosum og jarðskjálftum í bland við kórónaveirurnar, en ég er nokkuð viss um að ég verð búinn að fá essemmesstilkynningu áður en ég næ að kveikja á því.

Góðar nútímalegar stundir

Facebook ummæli