Næst mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita og slysavarnarfélaga landsins fer fram í dag og um helgina. Neyðarkallasalan. Hún hefur hingað til verið fyrstu helgina í nóvember en vegna covid 19 var henni frestað fram í febrúar. Við seldum þó stóra kallinn til fyrirtækja í nóvember sl., enda krefst sú sala ekki nálægðar og því smithætta afar lítil. Sú sala gekk vel og vonandi verður okkur vel tekið nú um helgina.

Flugeldasalan um síðastliðin áramót gekk einnig vel en líkur eru á því að á næstu árum muni eitthvað draga úr henni. Skiljanleg umhverfissjónarmið skýra það. Það er því áskorun til okkar í björgunarsveitunum og vonandi kemur ríkisvaldið að því með opnum hug, að finna aðrar leiðir til að standa undir því mikilvæga starfi sem björgunarsveitir landsins sinna ár hvert. 

Við í Hveragerði förum í um það bil 50 útköll á ári, eitt á viku. Sækja slasaða ferðamenn upp í Reykjadal, loka Hellisheiðinni og stundum að bjarga fólki af heiðinni, leitum að týndum einstaklingum og margt fleira. Í sveitinni okkar er góður kjarni af áhugasömu og duglegu fólki sem er tilbúið að stökkva til um leið og neyðarkallið kemur. Í sjálfboðnu starfi þar sem enginn fær greitt fyrir þátttöku. Tel að þetta myndi kosta samfélagið (ríki og sveitafélög) ansi marga milljarða króna á ári ef ekki kæmi til þessi góði áhugi þessara einstaklinga.

Ég verð sjálfur í verslunarmiðstöðinni (mollinu okkar) í Hveragerði í dag eftir hádegið og nýt aðstoðar okkar góða bæjarstjóra, Aldísar, sem hefur lagt okkur gott lið í þessu mikilvæga verkefni. Sjáumst kannski þar. Ef einhvern vantar Neyðarkall, get ég auðvitað líka póstlagt þá til viðkomandi gegn millifærslu 😊

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna og gjaldkeri Hjálparsveitar skáta í Hveragerði

Mynd:Landsbjörg.is

Facebook ummæli