Miklar og góðar breytingar og endurbætur, hafa orðið á frístundamiðstöðinni Bungubrekku síðan í haust. Verkefnastjóri þar er Ingimar Guðmundsson sem flutti aftur heim til Íslands eftir þriggja ára dvöl í Svíþjóð. Það má því segja að Ingimar sé einn af mörgum snúbúum Hveragerðis, þar sem hann er uppalinn í Hveragerði, flutti burt og sneri svo til baka. Hann býr með kærustunni sinni, Eddu Björk Konráðsdóttur og eiga þau tvo syni, Erni Atla, 4ra ára og Hilmi Frey, 2ja ára.

Ingimar og fjölskyldan í Hveragerði.

Ingimar hefur nánast verið að vinna með ungmennum síðan hann var 18 ára en hann byrjaði sem þjálfari hjá yngri flokkum Hamars meðan hann var í fjölbrautaskóla Suðurlands. Þar var hann á íþróttabraut, með félagsfræði og sálfræði sem viðbótarnám. Leiðin lá því næst í Háskóla Íslands.

„Þessi blanda skapaði áhuga minn á sálfræði, félagsfræði, íþróttafræðum og uppeldisfræði. Þar af leiðandi ákvað ég að fara í Háskóla Íslands 2014 í tómstunda- og félagsmálafræði. Námið er þverfaglegt og ekki margir vita endilega hvaða nám þetta er. Tómstunda- og félagsmálafræði er þriggja ára nám og lýkur með BA-gráðu. Lögð er áhersla á tómstundafræði allra aldurshópa, reynslunám, leiðtogafræði, lífsleikni, félagsuppeldisfræði, einelti og félagsmál. Á meðan ég var í námi sótti ég reynslu á öðrum stöðum og vann með hópefli, á viðburðum, í frístundaheimili og félagsmiðstöðvum“.


Lokaritgerð Ingimars í háskólanum var um teymi og hlutverk leiðtoga. Hann kláraði ritgerðina í fjarnámi í Svíþjóð, og fékk síðan vinnu í alþjóðlegum frískóla og starfaði þar í teymi sem kallað er „student care“. Skólinn, sem er í úthverfi Stokkhólms, er alþjóðlegur skóli með um 640 nemendur í 7.-10. bekk.

„Student Care sjá um allt hið félagslega í skólanum, bæði það góða og það slæma. Ég sá um eineltismál og félagsleg vandamál ásamt því að skipuleggja viðburði skólans. Eftir tvö ár í starfi fékk ég stöðuhækkun og varð „Head of Student Care“ og var þar af leiðandi orðin yfir öllu teyminu, sem saman stendur af sérkennsludeild skólans, námsráðgjafa skólans, hjúkrunarfræðingum og fjórum aðilum sem sérhæfðu sig í hegðun og atferli unglingana“.

Skólinn var mjög frábrugðinn því sem ég var vanur að sjá á Íslandi. Til dæmis varð ég að vera vel til fara, helst í jakkafötum með bindi og ég var ávarpaður sem Mr. Gudmundsson. Aginn var mjög mikill og þegar ég var að byrja mína fyrstu viku fannst mér þetta allt mjög skrítið en þegar á leið á áttaði ég mig á því hvers vegna hlutirnir voru eins og þeir voru. Þrem árum seinna var ég kominn með allt aðra skoðun á skólanum og það var ótrúleg upplifun að fá að starfa í þessu umhverfi“.

Ingimar hefur alltaf verið staðráðinn í að koma aftur til baka til Hveragerðis og gefa sig þá allan fram í frítíma-, tómstunda- og menningarstarf, með einhverju móti í bænum. Því fannst honum fullkomið að láta reyna á alla reynslu sína, þekkingu og nám í frístundamiðstöðinni Bungubrekku.

„Síðan ég byrjaði hef ég lagt mikla áherslu á yfirheitð Bungubrekka sem er í raun nafnið á frístundamiðstöðinni sjálfri. Frístundamiðstöðin hýsir svo starfsemi frístundaheimilisins Skólasel og Félagsmiðstöðina Skjálftaskjól. Eitt af því fyrsta sem ég vildi leggja áherslu á var að breyta því hvernig fólk talar um heildarstarfið. Þar er í raun mikill misskilningur þegar það kemur að orðunum sem eru notuð, sem er samt mjög skiljanlegur. T.d. Frístundaheimilið Skólasel er frístundaheimili og heitir Skólasel. Starfið er ekki beint skólasel eða lengd viðvera, heldur töluvert meira en það.  Þar af leiðandi fór áherslan á nafnið Bungubrekku, því það eru gríðarleg tækifæri á bakvið það að vera með frístundamiðstöð í sveitarfélagi eins og Hveragerði“.

Draumurinn hjá mér er sá að Frístundamiðstöðin Bungubrekka verði einfaldlega miðstöð frítímans í Hveragerði og húsnæðið verði í raun og veru eign allra sem búa hérna. Húsnæðið bíður upp á gríðarlega marga valkosti og það er hægt að gera ótrúlega hluti. Til dæmis: Ungmennahús, aðstaða fyrir rafíþróttafélag, samkomustaður fyrir íþróttalið Hamars, aðstaða fyrir námsmenn í Hveragerði, smiðjur á vegum Hvergerðinga, kaffisala á blómstrandi dögum, fjölskylduskemmtun um sumar, og skíðaskálastemming að vetri til þegar snjórinn er í brekkunni“.

Ingimar er ánægður með starfsfólk sitt á Bungubrekku en undanfarnar vikur hefur mikil áhersla farið í breytingar og uppbyggingu á Skólaselinu. Þau hafa verið að byggja ofan á ákveðinn grunn sem var búið að byggja. Margir foreldrar hafa talað um að starf og tómstundir barnanna séu nú mun skipulagðara en áður. Facebook-síða Bungubrekku sýnir þeim reglulega myndir úr starfinu á einstaklega skemmtilegan hátt, án þess að brjóta nokkur boð og bönn á myndbirtingum persónuverndar.

„Frístundaleiðbeinendur Bungubrekku sem starfa annaðhvort í frístundaheimilinu, félagsmiðstöðinni eða á báðum stöðum hafa verið algjörlega magnaðir síðustu vikur og ekkert verkefni hefur stoppað hópinn. Það hefur sýnt sig síðustu mánuði hvað mannskapurinn er ótrúlega mikilvægur ef starfið á að vera gott. Stærsta breytingin hefur líklega verið valkerfið sem við höfum sett upp. Valkerfi eru algeng meðal frístundaheimila en það er líklegt að frístundaheimilið Skólasel styðjist meira við tæknina heldur en mörg önnur frístundaheimili. Við erum með kerfi sem hjálpar börnunum að velja hvað er í boði og okkur að halda utan um mætingu og hvar börnin eru í starfinu. Þetta kerfi hefur líka hjálpað til að gera starfið breytilegra og eitthvað nýtt getur auðveldlega komið inn í starfið hjá okkur þegar þess er þörf. Þetta auðveldar okkur mikið að skipuleggja íþróttastarf barnanna og koma þeim á réttar æfingar á réttum tíma og almennt flæði í starfinu“.

„Þetta virkar þannig að öll börn fá sitt spjald með nafni sem færist svo á milli staða eftir því hvað þau velja. Börnin fá svo merkingu á spjöldin ef þau tilheyra ákveðnum æfingahóp og við styðjumst svo við rafrænt dagatal til þess að fylgjast með æfingunum. Allt þetta kerfi er aðgengilegt í spjaldtölvu-, sjónvarps- og tölvubúnað Bungubrekku. Frístundaheimilið er komið á flotta siglingu og áherslurnar geta farið að vera meira á smiðjur og allskonar skemmtilegheit sem við getum boðið börnunum upp á“.

Þrátt fyrir allskonar samkomubönn síðustu misserin útaf Covid-19 reynir Ingimar og samstarfsfólk hans að gera sitt besta til að halda úti félagsstarfi fyrir unglingana, en félagsmiðstöðin Skjálftskjól hefur sömuleiðis tekið töluverðum breytingum. Eitt af markmiðunum í vetur hefur verið að gera húsnæðið aðgengilegra fyrir bæði frístundaheimilið og félagsmiðstöðina. Í lok sumars var félagsmiðstöðin að nota 4-5 rými í húsnæði Bungubrekku af um það bil 12 talsins. Eins og staðan er í dag er félagsmiðstöðin að nota um það bil 11 rými og þar af leiðandi meira pláss fyrir stærri hópa og fleiri möguleikar þegar það kemur að viðburðum og skipulagðri dagskrá.

„Þegar kemur að félagsmiðstöðinni hefur áherslan verið aðalega sú að skapa góða stemmingu og að aðstaðan og búnaðurinn sem er til staðar sé nægilega góður að engin dagskrá og opið hús sé í raun nægilega skemmtilegt til þess að unglingarnir vilji mæta. Þegar aðstaðan, búnaðurinn og grunnstarfsemin er orðin góð munu myndast mörg tækifæri fyrir grunnskólann og félagsmiðstöðina til þess að byggja upp gott samstarf til vinna með félagsleg vandamál ef þau koma upp. Með góðu samstarfi grunnskólans og  Bungubrekku er hægt að brúa stóran hluta í lífi barna og unglinga og þar af leiðandi byggja um heildstæða og heilbrigða menningu meðal barna og unglinga“.

Facebook ummæli