Ég hef alltaf talið það til gæfu Hveragerðinga að hér hafa ávallt búið og þrifist ágætlega alls kyns kvistir á hinu mannlega tré.  Úr bernsku man ég eftir mörgum eftirminnilegum einstaklingum sem lifa enn í minningunni.  Margir þeirra voru heimilisvinir fjölskyldunnar eins og hann Dagbjartur sem var svo góður í skák og var síðasti landpósturinn hér á Íslandi, einnig hún Sigga sem var vinkona mömmu frá því hún vann á Kleppi.  Þau tvö og mörg önnur voru íbúar á Dvalarheimilinu Ási.  Þau bundu ekki bagga sína sömu böndum og flestir aðrir en mikið sem þau og fleiri sem þar bjuggu lífguðu upp á bæjarbraginn.   Mannlífsflóran varð ríkari með þeim fjölmörgu skemmtilegu íbúum sem bjuggu á Ási en hún var líka ríkari vegna þess fjölbreytta mannlífs sem ávallt hefur þrifist hér í Hveragerði.  

Stundum er ég spurð hvort ekki sé erfitt að búa í svona litlu bæjarfélagi þar sem allir þekkja alla og þar sem helsta skemmtun manna hljóti að vera að tala um náungann.  Það er svo merkilegt að mér hefur aldrei fundist bæjarlífið einkennast af þessu.  Hér er auðvitað talað um fólk eins og alls staðar er gert en það einkennist sjaldnast af fordómum eða þröngsýni.  Ég hef ávallt talið það til gæfu Hvergerðinga að við höfum alist upp með kynlegum kvistum og alls kyns merkilegum manneskjum.  Fólki sem oft hefur ekki fundið sér stað fyrr en hér.  Í bænum okkar þar sem allir fá að blómstra í friði.  Það er einkenni á góðum bæjarbrag að allir fái að njóta sinnar sérstöðu og að allir eigi sinn stað.  Það er svo dýrmætt að við höldum í þann anda sem skapast hefur með fjölbreyttri mannlífsflóru.  Mannlífsflóru sem mögulega skapaðist strax í árdaga byggðar með listamönnunum sem byggðu bæinn, með sjálfstæðum garðyrkjubændum og skapandi frumkvöðlum en ekki síst þeim fjölmörgu íbúum á Ási sem auðgað hafa líf okkar allra hér í Hveragerði. 

Að lokum vil ég geta þess að þessi grein er skrifuð þegar ég sá að hann Ingólfur á Ási væri dáinn.  Ég þekkti ekki söguna hans Ingólfs og vissi ekki hvers vegna hann væri búinn að búa hér á dvalarheimilinu í um 30 ár.  En ég þekkti hann samt nógu vel til að heilsa honum í hvert sinn þegar við mættumst á göngu sem var alloft. Hann með sitt sérkennilega göngulag sem nú mun ekki framar sjást á götum bæjarins.  Það er sjónarsviptir að Ingólfi en mér hlýnaði um hjartað þegar ég sá í minningargrein hversu fallega bróðir hans talaði um Ás og Hveragerði og lýsti hversu vel Ingólfi leið hér. Það var góð tilfinning.

Með góðri kveðju til ykkar allra frá 
Aldísi Hafsteinsdóttur

Facebook ummæli