Á veggjum Hofland Eatery má nú sjá sérstaklega litrík og óvenjuleg listaverk eftir listamanninn, grafíska hönnuðinn, Eyjapeyjann og nú Álftnesinginn Gunnar Júlíusson. Þar tvinnast saman sögur þeirra Tryggva og Hörpu eigenda Hofland Eatery annarsvegar úr Hveragerði og hinsvegar frá Ólafsvík. Sömuleiðis má sjá þá heiðursmenn Lauga löggu frá Ólafsvík, föður Hörpu og svo Sigga föður Tryggva, sem rak Hoflandssetrið og flestir Hvergerðingar muna nú vel eftir.

Gunnar segist vera hrifinn af endurvinnsluhönnun og eru verkin unnin á allskonar gamalt timbur sem hann fær hér og þar. Sömuleiðis hefur hann fengið efni hjá Skógrækt Reykjavíkur þar sem hann fær timbur með berki á, sem ramma verkin hálfpartinn inn. Hann velur timbrið eftir kostgæfni og reynir að hafa það með sögu og sál, með kvistum og kvistgötum og bætir jafnvel ryðnöglum við ef svo ber undir. Svo raðar hann þessu vandlega saman, hreinsar, burstar og pússar, en timbrið er ekki síður mikilvægur hluti af listaverkinu en viðfangsefnið sjálft. Best finnst honum að teikna fólk með sterka andlitsdrætti og velur timbrið eftir því.

„Ég var sex ára í Heimaeyjargosinu 1973 og við fjölskyldan fluttum tímabundið í Ölfusborgir. Það var yndislegur tími. Þar sá ég tré, læki og ár í fyrsta sinn. Skilningarvitin upplifðu alveg nýja hluti í þessari fallegu náttúru. Kannski finnst mér tré svona fallegur og merkilegur efniviður síðan þá“?

Hann skeytir saman minni bútum, til að brjóta upp flötinn. „Það má segja að það passi ágætlega við okkur manneskjurnar. Við erum öll misbrotin og í misstórum pörtum. Hliðarnar eru síðan hafðar ójafnar, til að skapa smá spennu. Beinar línur eru ekki nógu spennandi“ segir Gunnar. Verkin eru lituð með þurrpastel og lakkað svo yfir.

Fleiri verk: www.gunnarjul.is
Instagram: #gunnarjulart

Hveragerði og Ólafsvík

Facebook ummæli