Á laugardaginn var boðið uppá lestrarstund með hundum í bókasafninu í Hveragerði. Mæltist þetta mjög vel fyrir og var fullbókað í alla tímana. Vigdís – vinir gæludýra á Íslandi – stendur fyrir þessum viðburðum þar sem sérþjálfaðir hundar leyfa börnum að lesa fyrir sig. Margrét Sigurðardóttir formaður Vigdísar – vina gæludýra á Íslandi – skrifaði meistararitgerð sína í uppeldis- og kennslufræðum við HÍ um lestrarþjálfun og hvort það að lesa fyrir hund hafi áhrif á lestrarhæfni barna. Margrét segir að börnum finnist mun skemmtilegra að lesa fyrir hund en manneskjur. Hundurinn hlustar og dæmir þau ekki eða leiðréttir, og þau fá að lesa á sínum hraða. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að lestraráhugi jókst hjá öllum börnunum þegar þau voru að lesa fyrir hundinn og viðhorf til lestrar varð jákvæðara. Hér er hægt að fræðast meira um verkefnið.

Börnin í Hveragerði lásu í 20 mínútur fyrir hund sem hlustaði þolinmóður á ásamt lestrarliða (eiganda hundsins). Hundarnir sem heimsóttu bókasafnið voru Spói, íslenskur fjárhundur og Krummi, svartur labrador eru sérþjálfaðir til að hlusta á upplestur. Eftir hvern lestur fengu þeir að hvíla sig og fara út að pissa og borða og voru svo tilbúnir til að taka á móti næsta barni. Börn sem vanalega hafa ekki athygli til að lesa lengur en 5 – 10 mínútur voru mjög iðin og áhugasöm og lásu í heilar 20 mínútur án þess að stoppa, og sögðust vera tilbúin að lesa miklu lengur.

Öll börnin sem Krumminn talaði við vildu helst koma aftur strax daginn eftir og halda áfram með lesturinn. Þau vona að þetta verði fljótt aftur í boði og ætla þá að vera búin að æfa sig vel heima og lesa helling af bókum.

Við hvetjum lesendur til að fylgja bókasafninu okkar hér á Facebook og skoða hvaða viðburðir eru þar í gangi.

Hróar Ingi Hallsson les fyrir Krumma
Þóranna Ágústsdóttir og Krummi
Íris Þórhallsdóttir las kisusögu fyrir lestrarhundinn Spóa

Facebook ummæli