Um þessar mundir eru 80 ár síðan Ísland var hernumið af Bretum, en það gerðist 10. maí 1940. Nokkrum dögum eftir að bresku hermennirnir stigu á land í Reykjavík var liðsveit send austur fyrir fjall og hafði hún m.a. aðsetur í Hveragerði. Í júlímánuði 1940 tók kanadísk hersveit, Les Fusiliers Mont Royal, við vörnum Suðurlands og setti hún upp aðalstöðvar í Hveragerði. Tjaldbúðir voru settar upp á flötinni við Varmá, þar sem nú er lystigarðurinn Fossflöt auk nokkurra tjalda við goshverinn Grýlu í minni Ölfusdals. Hermennirnir sem dvöldu í Hveragerði voru 124 talsins og jafnmargir íbúum Hveragerðis á þeim tíma. Hafa þeir án efa sett nokkurn svip á mannlífið í þorpinu enda tvöfaldaðist íbúatala þorpsins í einum vettvangi. Umsvif hersveitarinnar voru nokkur í Hveragerði, m.a. hlóðu þeir vígi norðan við tjaldbúðirnar á bökkum Varmár og víðar. Skotæfingar fóru fram í Ölfusdal og hermenn marseruðu um götur. Bæjarbúar höfðu líka atvinnu af hermönnunum, s.s. við þvotta og við sölu á „Fish and chips“ í kjallara á Hverabökkum (Breiðumörk 23).

Kanadamennirnir stoppuðu þó ekki lengi og í október yfirgáfu þeir Hveragerði og sigldu frá Íslandi skömmu síðar. Öll mannvirki hersins í Hveragerði voru rifin og fjarlægð. Er þeir fóru frá Hveragerði tóku þeir vegaskilti traustataki sem á stóð „Grýta 2 km“ og fylgdi það hersveitinni til stríðsloka. Litu þeir á skiltið sem nokkurskonar verndargrip. Hersveitin var meðal þeirra fyrstu sem stigu á land í innrás bandamanna í Normandí í Frakklandi í sumarið 1944 og mun skiltið hafa þá verið með í för. Skiltið er nú varðveitt í liðsforingjasal hersveitarinnar í Montreal í Kanada. Þess má geta að heiti goshversins Grýlu var í áratugi misritað vegna villu sem birtist í bók Þorvaldar Thoroddsen árið 1911 og svo hefur verið með umrætt skilti. Eftir að kanadíska hersveitin yfirgaf Hveragerði höfðu hermenn ekki aðsetur í bænum, en voru þó í nágrenninu, einkum í Kaldaðarnesi auk þess sem nokkrir höfðu aðsetur á Núpafjalli.

Njörður Sigurðsson

Tjaldbúðir Les Fusiliers Mont Royal á bökkum  Varmár sumarið 1940. Reykjafoss og rafstöðin í Varmárgili í bakgrunni. Ljósmynd frá Imperial War Museum.
Hermenn hlaða vígi á bökkum Varmár sumarið 1940. Ljósmynd frá Imperial War Museum.ð 1940. Reykjafoss og rafstöðin í Varmárgili í bakgrunni. Ljósmynd frá Imperial War Museum.
Vegaskiltið sem hersveit Les Fusiliers Mont Royal tók með sér úr Hveragerði haustið 1940 er nú varðveitt í liðsforingjasal hersveitarinnar í Montreal í Kanada. Mynd úr Morgunblaðinu.

Heimildir:
Guðmundur Kristinsson: Styrjaldarárin á Suðurlandi. (Selfossi 2001), bls. 17-29.
Ljósmyndasafn Imperial War Museum.Morgunblaðið 6. maí 1990, bls. 18-19.

Facebook ummæli