Það eru ekki allir sem vita að Hveragerði hefur verið í þjóðleið frá því að land byggðist, þó að þéttbýli hér sé ekki eldra en 90 ára. Vestast í sveitarfélaginu, undir Kömbunum, er að finna leifar af þremur kynslóðum af þjóðvegum. Með þeim þjóðvegi sem nú liggur um Kamba er því að finna á litlu svæði fjórar kynslóðir af þjóðvegum allt frá landnámi. Mér finnst mikilvægt að við höldum þessum minjum til haga og skipuleggjum byggðina í Kambalandi þannig að sýnishorn þessara þjóðvega fái að njóta sín og vera hluti af skipulaginu. Samkvæmt núverandi skipulagi er aðeins gert ráð fyrir að mjög lítill hluti þessara minja verði varðveittar eins og sjá má hér að neðan.

Hér fyrir neðan er mynd af skipulagi Kambalands þar sem ég er búinn að merkja inn þessar mannvistarleifar, nr. 1-3 og svo eru ljósmyndir af minjunum, sem sjást kannski ekki mjög vel í dag þar sem mosinn hefur náð yfirhöndinni víða.

Nr. 1: Gamla þjóðleiðin frá landnámi til um 1880. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má. Gamla þjóðleiðin liggur niður í Ljóðalaut. Á brotalínunni á skipulagsteikningunni má sjá m.a. hvar þjóðleiðin liggur, m.a. við lóðir næst Ljóðalaut og aðrar lóðir sem munu skera þjóðleiðina í sundur.

Nr. 2: Um 1880 var lagður vegur yfir Svínahraun og Hellisheiði og niður Kamba. Vegavinnustjóri var Eiríkur Ásmundsson í Grjóta og hefur vegurinn verið kenndur við hann, ýmist nefndur Eiríksvegur eða Eiríksbrú. Vegurinn var steinlagður og einkenni hans var að hann var lagður þráðbeinn yfir hæðir og lautir. Í Kömbunum gat vegurinn því orðið nokkuð brattur. Vegna þessa og að sjaldan var borið í hann var vegurinn sjaldan notaður. Nýr Kambavegur var svo lagður árin 1895-1896. Enn sést móta fyrir Eiríksvegi fyrir ofan byggðina í Hveragerði þó að mosi hylji nú þennan gamla veg. Á brotalínu á skipulagsteikningunni má sjá hvar Eiríksvegur liggur efst uppi við Kambaveg. En Eiríksvegur liggur í raun nánast alveg að byggðinni við Borgarhraun/Kjarrheiði en skipulagið gerir ráð fyrir að hann hverfi alveg undir lóðir og götur.

Nr. 3. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði og niður Kamba árin 1895-1896 og var sá vegur í notkun allt til ársins 1972 þegar núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun. Gamli Kambavegurinn er nú vinsæl gönguleið. Gert er ráð fyrir því í skipulagi Kambalands að vegurinn verði ein af stofnbrautum hverfisins og má þannig segja að hann haldi sínu hlutverki.

Gamla þjóðleiðin frá landnámi til um 1880.
Gamla þjóðleiðin frá landnámi til um 1880 fyrir ofan Ljóðalaut.
Eiríksvegur eða Eiríksbrú sem var lagður um 1880, sést móta í grjóthleðsluna í veginum.
Gamli Kambavegurinn sem var lagður um 1895-1896.

Facebook ummæli