Sett hefur verið upp sýning á verkum Jónu Berg Andrésdóttur á Bókasafninu í Hveragerði. Jóna Berg fæddist í Reykjavík og ólst upp við það að bækur og myndlist væru sjálfsagður hluti af lífinu enda málaði faðir hennar og vatnslitaði þegar minnsta tóm gafst til frá vinnusamri tilveru. Á sumrin var hún hjá ömmu sinni í Vestmannaeyjum, í einu húsanna á Kirkjubæ, sem fóru fyrst undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973.

Jóna flutti til Eyja eftir að hafa lokið námi í Verzlunarskóla Íslands. Hún fór að sinna postulínsmálun 1975 og sótti nokkur námskeið sem voru haldin í Eyjum. Blýantur og litur hafa líka alltaf verið innan seilingar frá því hún var barn. Hún fór sjö ára á myndlistanámskeið í Handíða- og myndlistaskóla Reykjavíkur og fjórtán ára á teikninámskeið í sama skóla þar sem teiknað var eftir styttum, lifandi módelum og fleiri fyrirmyndum.

Eftir að Jóna flutti frá Eyjum 2001 hefur hún sótt nokkur námskeið í olíumálun, meðal annars í MÍMI hjá Hörpu Björnsdóttur listakonu og vatnslitanámskeið hjá Derek Mundell í Myndlistaskóla Kópavogs 2016 og 2017. Jóna er nýr félagi í Myndlistafélagi Árnessýslu.

Jóna sækir hugmyndir sínar í land og náttúru sem hún þekkir vel eftir búsetu í Eyjum og margar ferðir um landið en uppsprettan kemur líka úr dýraríkinu og mannlífinu, ekki síst úr hennar nánasta ranni.

Sýningin mun standa út júní og er opin á sama tíma og bókasafnið, mánudaga kl. 11-18:30, þriðjudaga-föstudaga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14.

Stækka mynd

Facebook ummæli