Margir búa sér til hefðir í kringum jólin og margir eru fastir í gömlum hefðum sem verða að vera, öðruvísi koma ekki jólin. Svo er til fólk sem gerir aldrei það sama um hver jól. Að mínu mati er allt gott og gilt, hvað svo sem menn velja sér.

Mér finnst aðalatriðið vera að fólk haldi jólin útfrá sínum forsendum. Sínum tíma, fjárhag og aðstæðum.

Ef hefðin er farin að kosta þig meiri pening en þú ert til í að eyða, þá mun hún ekki skila góðri tilfinningu. Þá stjórnar hefðin en ekki þú. Er hefðin þess virði?

Engar hátíðir eiga að snúast um það að koma þér í skuldir til þess eins að sýna einhverjum öðrum að þér þykir vænt um viðkomandi.
– Jim Carrey

Hefðir eru skemmtilegar. Þær framkalla einhverja nostalgíutilfinningu og maður heldur í hefðir vegna þess að þær framkalla óútskýranlega góðar tilfinningar. Þetta er samt vand með farið, að ríghalda í hefðir því aðstæður geta breyst; einhver er í vinnunni, einhver verður partur af annarri fjölskyldu, einhver deyr eða einhver getur ekki mætt.

Ég hef unnið með aðstæður mínar á hverju ári og bý til eitthvað skemmtilegt út frá þeim á hverju ári. Þannig að jólin hjá mér hafa ekki verið eins í einhver 6-7 ár og það er bara ótrúlega gaman.

Til dæmis erum við hjónin núna með lítil börn sem fara að sofa uppúr kl. 20 á kvöldin. Við ætlum ekki að rembast við að halda börnunum vakandi eingöngu til þess að opna pakka. Þessi jólin verða sennilega einhverjir pakkar opnaðir milli forrétts og aðalrétts, eða jafnvel bara daginn eftir. Á næsta ári verða þau einu ári eldri og skilja meira hvað er að gerast – þá verður eitthvað annað form á jólunum okkar. Allt miðað við aðstæður hverju sinni.

Ég er alin upp við rjúpur en eftir að ég hef haldið jólin sjálf heima hjá mér, þá hefur aldrei verið það sama í jólamatinn. Og það er bara skemmtilegt – jólin hafa samt alltaf komið. Jólin koma ekki endilega með söltuðu og/eða reyktu kjöti.

Ég hvet þig til að setja sjálfa/n þig í fyrsta sæti á jólunum. Ef þig langar að hafa kjúklingasalat í matinn – gerðu það (ég gerði það einu sinni og það var æði 🙂 ).

Hafðu jólahátíðina þína eftir þínu eigin höfði.

– Elín Káradóttir –


Jólamynd: pvproductions – www.freepik.com

Facebook ummæli