Margir muna eftir Jólalandinu í Hveragerði sem komið var upp í gamla tívolíhúsinu fyrir jólin 1995. Þegar Tívolíið í Hveragerði hætti starfsemi árið 1993 stóð húsið, sem var 6.000 fermetrar að stærð og byggt hafði verið yfir tívolíið árið 1987, að mestu ónotað. Ákveðið var í samvinnu við um 50 einstaklinga og fyrirtæki í Hveragerði og ferðaskrifstofuna Samvinnuferðir-Landsýn að opna jólaland í tívolíhúsinu fyrir jólin 1995. Í tímaritinu Vikublaðinu mátti lesa um þessi áform:

„Ísland er – af Íslendinga hálfu – orðið formlegt lögheimili jólasveinsins, þ.e. hins alþjóðlega Sánkti Kláusar. Gömlu jólasveinarnir íslensku munu áfram hafa aðsetur hjá foreldrum sínum upp til fjalla, en Sánkti Kláus hefur sest að í Hveragerði. Herra Kláus tók þessa ákvörðun eftir stíf fundahöld með engum öðrum en Helga Péturssyni í Ríó Tríóinu og var Helgi svo heppinn að vinnuveitendur hans í Samvinnuferðum-Landsýn bakka hugmyndina upp. Til að halda upp á flutning Sánkti Kláusar til Íslands verður efnt til sex vikna hátíðarhalda í Hveragerði frá 1. desember til og með 6. janúar. Bærinn verður uppljómaður, bæði götur, fyrirtæki og íbúðarhús, að ógleymdum öllum gróðurhúsunum. Kveikt verður samtímis á öllum jólaljósunum kl. 18 föstudaginn 1. desember með blysför og flugeldasýningu. Verslanir og fyrirtæki í bænum bjóða ýmis sértilboð og afslætti og þar verða uppákomur í gangi allan desember.“

Eins og sjá má var mikið lagt í Jólalandið, þar voru m.a. sýningar, leikrit, sölubásar og mikið um að vera fyrir ungu kynslóðina. Hvergerðingar tóku líka virkan þátt og bærinn var sérstaklega vel skreyttur fyrir jólin, og var efnt til skreytingarsamkeppni meðal bæjarbúa. Helgi Pétursson sagði í viðtali hver hugmyndin með Jólalandinu væri:

„Við tengjum þetta umheiminum með Sankta Kláusi sem sest að í Hveragerði vegna þess að hann hefur hitt fyrir íslensku jólasveinana og foreldra þeirra, Grýlu og Leppalúða. Um leið kynnist hann öllum þeim siðum sem tengjast íslensku jólahaldi. Þetta er meginhugsunin í því að koma mjög öflugt inn á erlendan markað á næsta ári með íslenska jólasiði og íslenska jólasveina.”

Um 10.000 manns heimsóttu Jólalandið fram að jólum árið 1995 en þrátt fyrir það var aðsóknin mun minni en vonir stóðu til. Aðsókn að Jólalandinu datt niður á milli jóla og nýárs og því var ákveðið að skella í lás nokkru fyrr en áætlað hafði verið. Í febrúar 1996 var svo leitað nauðasamninga fyrir fyrirtækið sem stóð að rekstrinum. Jólalandið í Hveragerði var því aðeins opið þessi einu jól og alþjóðlegi jólasveinninn Sánkti Kláus flutti úr Hveragerði og hefur hann lítið sést í bænum síðan.

Heimildir:
DV 5. janúar 1996, bls. 31.
Morgunblaðið 24. febrúar 1996, bls. 17.
Tíminn 25. nóvember 1995, bls. 12.
Vikublaðið 24. nóvember 1995, bls. 8.

Facebook ummæli