Á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars í dag, var greint frá því að Pálmi Geir Jónsson hefði hlotið kosningu sem Íþróttamaður Hamars 2020. Í umsögn Körfuknattleiksdeildar segir m.a. “Pálmi Geir er einn reyndasti maður Meistaraflokks Karla í körfuknattleik hjá Hamri þrátt fyrir að hafa fyrst gengið í raðir Hamars á síðasta tímabili og er hann jafnframt fyrirliði liðsins.  Pálmi Geir er afburða leikmaður sem er alltaf tilbúinn að leggja sig 100% fram til þess að liðið nái góðum árangri.  Hann er góð fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar fyrir bæði liðsfélaga og þá sem yngri eru.  Hann er alltaf tilbúinn að leiðbeina sem þeim yngri er og er það ómetanlegt að hafa innanborðs mann með viðlíka reynslu og hann hefur. ” 

María Clausen Pétursdóttir Sundmaður Hamars 2020, Karen Inga Bergsdóttir Knattspyrnumaður Hamars 2020, Pálmi Geir Jónsson Körfuknattleiksmaður Hamars 2020, Jakub Madej Blakmaður Hamars 2020 og Margrét Guangbing Hu Badmintonmaður Hamars 2020

Aðrir íþróttamenn sem voru í kjöri til Íþróttamanns Hamars 2020 voru:

Margrét Guangbing Hu badmintonkona, sem m.a. tók þátt í sínu fyrsta alþjóðlega fullorðinsmóti á árinu, Iceland International, þar sem hún átti hörkuleik og var meðal yngstu keppenda mótsins. Margrét hefur einnig sópað til sín fjölda verðlauna á árinu eins og síðustu ár.

Jakub Madej blakmaður, sem hefur verið stigahæsti leikmaður liðsins í 5 af 9 leikjum þess. Jakub hefur spilað kantstöðu í þágu liðsins þótt hjarta hans sé að vera líberó eins og stóð til í upphafi. Jakub er harðduglegur, með gríðarlegan metnað til að gera vel og er lykilmaður í þeim góða árangri sem liðið hefur náð á tímabilinu.

Karen Inga Bergsdóttir knattspyrnukona, sem átti stóran þátt í frábærum árangri Hamarsliðsins sl. sumar. Hún er reynslumikill leikmaður og góð fyrirmynd sem drífur liðsfélaga sína áfram. Hún er útsjónarsamur leikmaður, með gott auga fyrir spili, skoraði 3 mörk og lagði upp enn fleiri enda dugleg að skila boltanum á samherja sína. Karen er mikilvægur hluti liðsins sem steig sín fyrstu skref í fyrra og er komið til að vera.

María Clausen Pétursdóttir sundkona, sem er einn af burðarásum sunddeildarinnar. Hún er samviskusöm og leggur sig ávallt 100% fram í öll verkefni sem hún tekur þátt í. María náði lágmörkum inn á Aldursflokkamót Íslands 2. árið í röð og synti einnig vel á Aldursflokkamóti HSK og Héraðsmóti HSK á árinu. María sýndi miklar framfarir á árinu, er jákvæður og góður félagi, mikil fyrirmynd og á bjarta framtíð fyrir sér.

Facebook ummæli