Íshokkí í Hveragerði

Þegar ég var krakki átti ég uppáhaldsþátt með Tomma og Jenna. Mýsnar skrúfuðu frá öllum krönum og létu vatn flæða um allt húsið. Vatnið var síðan látið frjósa með ýmsum lífshættulegum aðferðum til þess að búa til skautasvell. Upphófst þá heldur betur eltingaleikur á ísnum með tilheyrandi brambrölti og látum. Mig dreymdi um að gera þetta heima hjá mér og skauta svo með vinum mínum um alla íbúð.
En nú er hægt að láta svona drauma rætast, en með töluvert minna veseni og hættustigum en í teiknimyndinni, og hefur fjölskylda í Hveragerði sett upp sitt eigið skautasvell.

Tommi og Jenni – Mice Follies frá 1954

Í Mánamörk er fjölskyldufyrirtækið Iceland Activities til húsa. Þar má ekki lengur bara finna allskonar græjur til útivistar heldur er hægt að renna sér á skautum inni í hlýjunni. Búið er að leggja sérstakar plötur á gólfið sem eiga að líkja eftir alvöru ís. Víða erlendis er vinsælt að setja upp svona mini-svell fyrir yngstu iðkendurna í skautaíþróttum og er þá notast við sérstakar gerviísplötur sem eru mun umhverfisvænni en alvöru svell sem þurfa dýran og orkufrekan kælibúnað.

Umgjörðin í kringum svellið í Hveragerði verður tilbúin seinna í vikunni en þegar ísplöturnar voru komnar á sinn stað í gær var ekki hægt að standast freistinguna og prófa að renna sér og skella krökkunum á íshokkíæfingu.

Kannski er þetta bara byrjunin. Hver veit nema að Suðurland eignist sitt skautasvell í fullri stærð fyrr en síðar og Skautafélag Hveragerðis eða íshokkídeild Hamars verði að veruleika?

Þið getið fylgst með ferlinu og séð fleiri myndir og video hér á Facebooksíðu Iceland Activities.

Úlfar sem er landsliðsmaður í íshokkí, er ekki í vandræðum að kenna krökkunum tæknina

Facebook ummæli