Á Facebook síðu Hvergerðinga var óskað eftir fólki til að koma í lófalestur í dag 11. nóvember milli kl. 10 og 16. í Laufskóga 11. Ég ákvað að taka mér frí frá skjánum og skoða aðeins málið.

Hvað einkennir Íslensku þjóðina og er hægt að sjá það allt á höndunum, stærð lófa, lögun, línum, lengd fingra o.fl. Og eru fleiri örvhentir á Íslandi en annarsstaðar? Eða kannski bara í Hveragerði? Þessum spurningum ætlar Jana Napoli að svara en hún er núna stödd í Hveragerði þar sem hún tekur ljósmyndir af höndum bæjarbúa. Myndirnar og niðurstöðurnar fara svo í bók og stórt verkefni sem hún er að vinna að með háskólanum í Buffalo í New York fylki í Bandaríkjunum.

Jana sem er frá New Orleans, hefur núna komið sex sinnum til Íslands. Verkefnið Hands of Iceland, byrjaði á Vestfjörðum og hefur nú teygt sig hingað suður. Jana brennur fyrir þetta áhugamál sitt og er búin að taka yfir 130 handamyndir á Íslandi af öllum stærðum og gerðum og allt er þetta mælt og skrásett.

Ég skellti mér í lófalestur klukkan 10.30 í morgun í Laufskógana þar sem hún dvelur í þorpinu í bakgarðinum hjá Guðrúnu Evu og Marteini. Ég mætti með grímuna mína og á móti mér tók Jana í skrautlegum ullarsokkum, támjóum inniskóm, úlpu, með regnbogagrímu fyrir andlitinu og það eina sem sást í voru brosandi augun. Ég var sko greinilega komin í eitthvað hressandi og óvenjulegt verkefni því allt í kring voru myndavélar, sími, ipad og tölva ásamt bullandi potti á hlóðum fullum af haframjólk og súkkulaði. Ég vissi ekki hvort ég ætti von á að hitta vísindakonu, listakonu eða spákonu en fékk þarna brot af þessu öllu saman.  

Jana var opin og skemmtileg og hafði frá mörgu að segja um hvað hún væri búin að hitta mikið af fólki og hvað hendurnar segja mikið. Ungar og sléttar, gamlar, lúnar og snúnar af vinnu o.s.frv. Hún sagði mér frá bókinni Hands of Iceland, sem er í vinnslu og sýndi mér ótrúlega fallegar myndir af höndum og fólki sem mun prýða bókina.

Hún tók svo niður upplýsingar um uppruna minn og tók svo myndir af báðum höndum, lófa og handabaki. Allt þetta flaug svo inní tölvuna. Eftir góða sprittun tók hún í hendurnar á mér og beyglaði þær aftur og fram og svo las hún í lófana, og fingurna og neglurnar T.d komumst við saman að því að ég er bara alls ekki rétthent heldur er vinsti höndin ríkjandi hjá mér og þar með hugsa ég víst öðruvísi en flestir, sem kannski skýrir ýmislegt. Mér finnst t.d betra að gera allskonar með vinstri hendinni eins og að týna ber og reita arfa og núna nýlega tók ég uppá því að prófa að teikna myndir með vinstri eftir að ég meiddi mig í hægri og gekk það jafnvel betur en áður. Flæðið í teikningunni var allt annað. Hún sagði mér ýmislegt um allskonar línur og munstur handanna. Hún endaði samtalið á því að segja mér að ég gæti orðið allra kerlinga elst (amma mín varð 106 ára, kannski ég slái það met) og myndi halda áfram að skapa og um sjötugt færi ég alveg á flug.

Það var gott að brjóta upp hversdagsleikan í heimavinnunni þennan morguninn fara í göngutúr og fá að kynnast manneskju sem talar af svo mikilli ástríðu um verkefnið sitt að það er unun að hlusta á. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðurnar en Jana stefnir á að koma aftur hingað strax í vor og bæta í safnið. Mæli þá með að fólk skreppi til hennar og taki þátt í verkinu með henni.

Þið getið fræðst meira um Jana Napoli og verkin hennar hér.

Facebook ummæli