Listasafn Árnesinga og Hveragerðisbær hafa endurnýjað þjónustusamning sem ætlað er að efla samstarf bæjaryfirvalda í Hveragerðisbæ og Listasafns Árnesinga með það að markmiði að menningastarf í Hveragerði aukist samkvæmt stefnu bæjaryfirvalda þar um.

Gert er ráð fyrir að starfsemi Listasafnsins verði áfram sýnileg eins og verið hefur bæði fyrir íbúa Hveragerðisbæjar og ferðamenn. Í samningnum er meðal annars tilgreint að safnið muni standa fyrir námskeiðum fyrir börn og unglinga sem og að Listasafn Árnesinga muni bjóða einum árgangi á elsta stigi og einum árgangi á yngsta stigi grunnskóla Hveragerðis árlega á sýningu í safninu.

Styrkur Hveragerðisbæjar til safnsins mun nema um 15,6 milljónum á árunum 2021, 2022 og 2023.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristínu Scheving, safnstjóra ásamt Aldís Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, við undirritun samningsins.

Facebook ummæli