Bæjarráð Hveragerðis hefur ákveðið að hætta við árshátíð starfsmanna á þessu ári. Í sárabætur fær starfsfólkið gjafabréf upp á 5.000 krónur sem það getur nýtt sér á veitingastöðum bæjarins.

Í minnisblaði Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, kemur fram að óvissa vegna síbreytilegra sóttvarnareglna og þróun COVID-19 geri það að verkum að afar erfitt sé að skipuleggja samkomur sem þessar. 

Vonast sé til að hægt verði að halda glæsilega árshátíð í mars 2021.  „Starfsmönnum sem látið hafa af störfum og sem hefði átt að bjóða til árshátíðar 2020 verður þess í stað boðið á næstu árshátíð,“ segir í minnisblaðinu.

Bæjarstjórinn segir jafnframt að komið hafi upp sú hugmynd að starfsmennirnir fengju 5.000 króna gjafabréf á veitingastað í bænum. Þetta yrði sárabót fyrir árshátíðina en ekki síður stuðningur við rekstur í bæjarfélaginu.

Bæjarráð samþykkti hugmyndina og var Aldísi falið að ræða við verta bæjarins varðandi fyrirkomulag gjafabréfanna.

Frétt af www.ruv.is

Facebook ummæli