Kvikmynd Marteins Þórssonar og Guðmundar Óskarssonar, Þorpið í bakgarðinum eða Backyard Village, verður frumsýnd í Háskólabíó á morgun 17. mars. Myndin var að stórum hluta tekin í Laufskógum í Hveragerði, í desember 2019 og komu fjölmargir Hvergerðingar að gerð myndarinnar.
Um myndina segir: Brynja (Laufey Elíasdóttir), lýkur dvöl á heilsuhæli í litlum bæ en treystir sér ekki til að snúa aftur til daglegs lífs í borginni og kemur sér fyrir á gistiheimili. Þar kynnist hún Mark (Tim Plester), ferðamanni sem á sömuleiðis erfitt með að yfirgefa bæinn. Þau bindast vináttuböndum, læsa örmum og finna í sameiningu færa leið um þrautirnar sem lífið hefur lagt fyrir þau.
Tim Plester sem leikur Mark, segir í viðtali við Banbury Guardian að þetta sé það verk sem hann sé einna stoltastur af og vonar hann að myndin fái sína eigin frumsýningu í Bretlandi þegar hægist á Covid-19, en áður hefur hann m.a leikið í Game of Thrones, After Life og Bohemian Rhapsody.
Hérna er hægt að sjá brot úr myndinni og nánari upplýsingar.
Sýningar hefjast svo 19. mars í Háskólabíó, Smárabíó og Borgarbíó Akureyri.




Facebook ummæli