Við ætlum að halda áfram að kynna nýja Hvergerðinga eins og við gerðum áður í prentuðu útgáfu Krummans. Við kynnum fyrst til leiks fjölskylduna í Borgarhrauni 15, og bjóðum þau innilega velkomin í bæinn okkar.

Mynd: Rán Bjargar.

Hver eruð þið?
Axel Högnason, vinn sem prentari hjá Pixlar í Skeifunni og gullsmiður hjá Dvalin Gullsmiðju í Hveragerði og Berglind Ósk Sigurðardóttir, er hundaþjálfari í fæðingarorlofi.

Högni Axelsson og Breki Axelsson

Hundarnir Súld og Héla

Heimilisfang: Borgarhraun 15 

Helstu áhugamál?
Útivist með fjölskyldunni og hundunum, gullsmíðin, allt sem tengist sci-fi og almennum nördaskap, bókmenntir, lélegar bíómyndir og góð stemming.

Hvað er langt síðan þið fluttuð til Hveragerðis?
Við fluttum um miðjan ágúst.

Hvar bjuggu þið áður og hvers saknið þið mest þaðan?
Við bjuggum í Hafnarfirði rétt hjá höfninni. Við höfum ekki ennþá fundið einhvers til að sakna þaðan, allt sem okkur vantar er hérna megin við heiðina.

Af hverju Hveragerði?
Við vildum alltaf fara eitthvert út fyrir bæinn og heyrðum aldrei slæma hluti af Hveragerði. Allir töluðu um hvað bæjarbúar væru vingjarnlegir og tæku vel á móti nýfluttum. Svo er þetta passleg fjarlægð frá bænum og hérna fundum við hús sem tikkaði í öll boxin.

Mikilvægast í lífinu?
Að líða vel og láta öðrum líða vel.

Facebook ummæli