Ég fæ mjög oft einkennilegar hugmyndir, sem sést best á því hvernig ég er til fara dags daglega, en ég fékk allt í einu hugmynd sem virtist meika sens. Þetta er reyndar gömul hugmynd og örugglega ekki einu sinni mín eigin hugmynd en hugmynd samt sem áður. Ég hef nefnilega prófað þessa hugmynd og hún virkaði. Fyrir mig. Að vera á ókunnugum slóðum í eigin bæ í eina helgi. Eða jafnvel bara í einn dag. Þetta er auðveldara en maður skildi ætla við fyrstu sýn. 

Til að byrja með þarf að setja sig í spor þeirra sem aldrei hafa komið til Hveragerðis. Þú veist ekkert um staðinn en hefur bara heyrt gott af honum og séð magnaðar myndir. Þig langar að upplifa staðinn. 

Næst er að telja upp úr sparibauknum og ákveða hvaða budget-i við erum á. Er það að banka uppá í heimahúsi og biðja um leyfi til að tjalda í garðinum eða er það mögulega mögulega hærri klassi? Líklegast yrði það ofan á. Nóg er af flottum gistimöguleikum í bænum. Síðan er bara brunað af stað. Ekkert öðruvísi en þegar við förum til Tene og komum eins og Chesterfield sófasett til baka. Það er enginn búinn að panta sér borð á veitingahúsi á Tene nema í besta falli kvöldið áður. 

Dagurinn fer í að skoða, upplifa og njóta náttúrunnar í göngu um bæinn og reglulegu stoppi á bjórkrám og veitingahúsum. Nú eða um öll þau fjöll og fyrnindi sem ramma þetta bæjarstæði svo fallega inn. Svo er tilvalið að kíkja í mollið (Sunnumörkina) eða átlettið (Álnavörubúðina) seinni partinn og geyma pokadýrið (eiginmanninn) á happy hour á Örkinni á meðan. 

Svo er sturta og snurfuss upp á herbergi og beint út að borða. Þar gerum við vel við okkur í mat og drykk, enda í fríi á ókunnugum stað þar sem við höfum lítið sem ekkert skynbragð á gjaldmiðilinn. Okkur finnst ekkert mál að borga 6 evrur fyrir bjór á Spáninu en tímum ekki 900 kalli í það sama hér heima. 

Svo er skrölt upp á herbergi seint um kvöld. Það er eini tími sólarhringsins í útlöndum sem íslendingur tekur leigubíl. 
Til allrar hamingju er allt í göngufæri í Hveragerði svo þess gerist ekki þörf. 

Facebook ummæli