Á vettvangi bæjarstjórnar hefur undirritaður reglulega bent á mikilvægi þess að varðveita einkenni byggðarinnar í Hveragerði, þ.e. mannvirki og náttúruna sem er okkur svo samofin. Má þar t.d. nefna annars vegar hugmyndir um að taka hluta af hverasvæðinu undir bílastæði fyrir Hveragerðiskirkju og hins vegar hugmyndir um varðveislu gróðurhúsa sem eru eitt megineinkenni bæjarfélagsins. Verndun húsa og byggðar hefur margvíslegan tilgang. Þannig getur verið leitast við að vernda tiltekna götumynd sem endurspeglar tímabil í sögu bæjarfélagsins og einstök hús geta haft menningarlegt og sögulegt gildi. Sögulegt umhverfi getur haft mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög. Eldri hverfi geta orðið eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og eftirsóttur staður til að búa og þar með aukið verðmæti fasteigna á slíkum svæðu. Því þarf einnig að huga að vernd byggðamynsturs, götumyndar og húsa í Hveragerði og er nú eitt slíkt mál í ferli innan bæjarkerfisins. Úrslit þess munu líklega skapa fordæmi um hvernig bæjaryfirvöld vilja horfa til þessara mála.

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar 8. október sl. var tekið fyrir erindi frá eiganda hússins Skaftafells (Heiðmörk 23) um leyfi til að rífa húsið og byggja nýtt í staðinn á lóðinni. Bæjarstjórn ákvað að grenndarkynna framkvæmdina í samræmi við skipulagslög og hefur málið því ekki enn hlotið fullnaðarafgreiðslu.

Húsið Skaftafell (Heiðmörk 23) var byggt árið 1943 samkvæmt upplýsingum um brunavirðingu hússins. Skaftafell er því með elstu húsum bæjarins. Húsið er lítið bárujárnsklætt íbúðarhús með valmaþaki sem var einkennandi fyrir byggðina sem myndaðist í Hveragerði á árunum 1930-1950 eða þegar þéttbýli var að myndast þar. Mörg húsanna sem voru reist á þessu tímabili voru lítil og lágreist, sum voru byggð sem sumarhús fyrir höfuðborgarbúa en einnig risu fjöldi íbúðarhúsa eins og húsið Skaftafell. Húsin sem standa norður af Skaftafelli í Bláskógum voru byggð á árunum 1940-1944 og mynda því heildstæða götumynd og byggðamynstur og endurspegla vel þetta byggingarlag. Mörg húsanna í Frumskógum (Skáldagötunni) eru jafnframt einkennandi fyrir byggðamynstur þessa tímabils þegar Hveragerði var að verða til.

Húsið Skaftafell stendur innan reits sem nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi Hveragerðis. Reiturinn afmarkast af Dynskógum, Varmahlíð, Breiðumörk og Heiðmörk. Tilgangur hverfisverndar á þessum stað er að varðveita byggðamynstur og götumynd. Um skilamála vegna hverfisverndar segir í aðalskipulagi:

„Hverfisverndin felur í sér að varðveita beri byggðarmynstur og götumynd reitsins. Ef  byggja á við hús eða fjölga þeim, skal það alla  jafna gert á baklóðum húsa þannig að það hafi sem minnst áhrif á götumyndina. Einnig er  heimilt að skipta lóðum þar sem aðstæður leyfa  að undangengnu deiliskipulag. Viðbyggingar og  ný hús skulu taka mið af formi og hlutföllum núverandi byggðar“

Það er því vandséð að bæjarstjórn geti fallist á ósk eiganda Skaftafells um að rífa húsið enda myndi það raska byggðamynstri og götumynd verulega og vera í andstöðu við aðalskipulag Hveragerðisbæjar. Það eru ekki mörg hús eftir í Hveragerði frá þessum tíma og mun færri sem enn eru nánast óbreytt frá því að þau voru byggð eins og húsið Skaftafell. Því er mikilvægt að stuðla að vernd hússins og þar með byggðamynstri götunnar.

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga þá stöðu sem nágrannar okkar Hvergerðinga, Selfyssingar, hafa komið sér í. Í gegnum tíðina hefur ekki verið hugað sérstaklega að verndun eldri húsa á Selfossi, eða að minnsta kosti hafa verið rifin og fjarlægð hús og mannvirki sem menn myndu vilja að væru enn uppistandandi. Er nú svo komið að nú standa yfir framkvæmdir á nýjum miðbæ á Selfossi sem byggist upp á eftirlíkingum af gömlum húsum, m.a. til að skapa notalegt andrúmsloft og endurheimta (ef það er hægt) hús sem áður stóðu á Selfossi. Ef við hugum ekki að vernd byggðar og húsa í Hveragerði kunnum við Hvergerðingar að standa í sömu sporum og Selfyssingar eftir nokkur ár og byggðar verði eftirlíkingar af húsum sem áður stóðu vítt og breytt um bæjarfélagið. Það viljum við væntanlega ekki. Heillavænlegra er að stuðla að vernd gömlu húsanna okkar og götumyndar sem við teljum að sé mikilvægt að varðveita.

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Mynd: ja.is

Facebook ummæli