„Gleðilegt ár!“ sögðum við eftir miðnætti síðastliðið gamlárskvöld, knúskysstumst, skáluðum og endurnýjuðum árskortið í fitubrennslustöðinni, tilbúin að vinna á hátíðasektarkenndinni strax daginn eftir, með belginn fullan af rjóma og reyktu keti.

Svo kom nýja árið eins og leðja úr fjallshlíð, ég slít ekki fingurgómum á að rifja þennan ófögnuð upp. Í dag var til dæmis jarðskjálfti á Reykjanesi upp á fimmkommasex, hefði það mátt bíða til 2021? Nákvæmlega ekkert sem kallar á að demba þessu yfir okkur núna, hefði svo vel mátt koma næsta sumar þegar allar sjoppur verða orðnar smekkfullar af túristum á ný. Þeir hefðu tekið selfí með tómatsósu og snakk á sjoppugólfinu í baksýn og sagt: “ómægod” nokkrum sinnum. Við hefðum bara brosað kankvíslega og sagt að þetta væri nú alvanalegt á eldfjallaeyju, jadídadída.

En síðustu tvo daga hefur nórt á ofurlítilli týru aftarlega í mínu dimma hugskoti. Ekki bjartsýni beint, heldur barnsleg tilhlökkun sem er einhver tærasta tilfinning sem mannlegt eðli hefur upp á að bjóða: ég ætlaði að sjóða saltað hrossakjöt í kvöld. Og gerði maður lifandi, hvort ég gerði. Sauð kartöflur úr eigin garði (það var nú einn harmleikurinn, spratt ekki rassgat) og ægilega fallegar rófur frá Sævari og Stulla, passlega kalt smér á borðinu og ísköld sódavatn á kantinum. Hundurinn hérna á Grund í Meðallandi stóð mænandi fyrir utan með tunguna úti, draup örlítið munnvatn niður og skottið sem annars tifar þegar hann situr og starir var orðið grafkyrrt. Ég tók lokið af pottinum og leit til hvutta, bjóst við að hann myndi ærast af spenningi. En nei, hann ýlfraði og tók á rás út í myrkrið eins hratt og fæturnir knúðu, hef ekki séð hann síðan og stórsér á pallinum hérna eftir klærnar.
Við smökkuðum ketið, það var ólseigt og bragðlaust, mér hafði tekist að klúðra viðburðinum. Allt unnið fyrir gíg. Þvílík vonbrigði.

Sem betur fer var til ávaxtagrautur og rjómi í ísskápnum, annars hefðum við örugglega bugast andlega, rifið upp allar plönturnar og étið þær með tómatsósu og sinnepi.

Þið megið troða þessu ári í pípurnar og reykja þangað til að glóðin svíður úr ykkur nasahárin fyrir mér.

Góðar stundir.

Facebook ummæli