Hringlandi vefverslun í Hveragerði

Það er svo gaman þegar maður kynnist skemmtilegu og duglegu fólki sem fær skrítnar eða óvenjulegar dellur og kemur hlutunum í framkvæmd. Kristjana Björk athafnakona í Hveragerði er akkúrat þessi jákvæða brosandi týpa og hefur látið drauminn rætast og opnað vefverslunina hringlandi.is.


Hugmyndin að hringlandi.is varð til í fæðingarorlofi (eins og Krumminn) og hægt hefur verið að fylgjast með ferlinu þróast á instagram. Þar lætur Kristjana móðann mása um allskonar sem tengist hannyrðum og fer ekki leynt með ástríðu sína og spenning á garni, nálum, skyttum og allskonar dúllum og blúndum.

Hringlandi er hannyrðavefverslun þar sem áhersla er á vattarsaum og orkeringu. Í júlí bætist svo við hekl og smátt og smátt vex vefurinn með fleiri tegundum hannyrða. Kristjana var í meistaranámi í textílkennaranum og tók eitt ár í Finnlandi. 

„Í Finnlandi lærði ég fleiri handverksaðferðir á einu ári en mig hefði nokkurn tímann grunað að ég myndi læra út ævina. Það var þá sem áhugi minn kviknaði fyrir alvöru. Markmið mitt með hringlandi er að miðla þekkingu á gömlum handverksaðferðum. Mér er mikið í mun að halda þekkingunni á lofti og til þess finnst mér mikilvægt að vekja áhuga ungs fólks á hannyrðum almennt“.

Þú ert það sem þú borðar

Kristjana stefnir á að vera með námskeið í haust, bæði í orkeringu og vattarsaumi. En draumurinn er að vera með vinnustofu í Hveragerði þar sem hún getur haldið námskeið og haft stutta verslunaropnunartíma.

„Núna er ég að skrifa upp hekluppskriftir. Ég mun setja þær í sölu og einnig útbúa heklpakka, þá getur fólk keypt allt nauðsynlegt í það tiltekna heklverkefni. Hugmyndin að hringlandi varð til í fyrra fæðingarorlofinu mínu og svo í því seinna ákvað ég að láta verða af þessu. Ég er með svo margar hugmyndir sem ég er spennt að hrinda í framkvæmd. Ég hlakka til að þróa hringlandi og er svo glöð að þetta ævintýri sé að verða að veruleika“. 

Allt áhugafólk um handavinnu, textíl og handverksaðferðir ættu að skoða og fylgja Kristjönu á síðunum hennar, vefversluninni hringlandi.is og á Instagram.

Vefsíðan opnar með pompi og prakt
Starfsmaður í þjálfun
Skutla eða skytta eru verkfæri sem notuð eru til orkeringar.
Skjáskot úr kynningu á orkeringu af Instagram

Facebook ummæli