Nú er sumarið að koma fyrir alvöru og þjóðhátíðardagurinn 17. júní framundan. Það er því tími kominn til að efnt verði til hreinsunarviku og að tekið sé til hendinni í bæjarfélaginu því öll viljum við jú að bærinn skarti sínu fegursta og ekki síst á hátíðisdögum.

Hreinsunavika verður því haldin dagana 7. – 13. júní að báðum dögum meðtöldum.

Þann tíma verður hægt að losa sig við rusl , gjaldfrjálst, á gámasvæðinu. Opnunartími gámasvæðisins verður með hefðbundnum hætti en við bætist að sunnudaginn 13. júní verður opið frá 12:00 til 16:00

Bæjarbúar eru hvattir til að nýta sér þetta og losa sig við rusl og annan óþarfa. Einnig eru íbúar hvattir til að nýta sér nytjagáminn en fátt er eins umhverfisvænt þegar kemur að úrgangsmálum og að búa ekki til úrganginn í fyrsta lagi. Lítið endilega við með góða hluti sem eiga enn mögulega lífdaga eftir og gáið ekki síður að því hvort þið finnið ekki einhvern gullmola til að taka með heim!

Talsvert er enn um það hér í bæ að bílhræ séu geymd á lóðum og eru þau sjaldnast til mikillar prýði. Ýmsir aðrir hlutir sem óhöndugt er að koma á gámasvæðið sjást einnig víða um bæinn. Þetta geta verið hlutir allt frá stórum trjábolum, rúmdýnum, húsbúnaði ýmis konar og annað slíkt. Það getur verið óárennilegt að leggja til atlögu við þessa hluti jafnvel einn síns liðs. Áhaldahúsið býr yfir ýmsum tækjum og vönum mönnum svo hugsanlegt er að hægt sé að aðstoða bæjarbúa við slík verkefni. Hafið endilega samband við bæjarskrifstofuna í síma 483-4000 ef þið eruð með hluti á lóðum ykkar sem þið þurfið aðstoð með og við reynum að hjálpa.

Tökum höndum saman og gerum bæinn okkar enn snyrtilegri og fallegri en hann er í dag.

Bestu sumarkveðjur

Höskuldur Þorbjarnarson
Umhverfisfulltrúi.

Facebook ummæli