Meðfylgjandi listaverk heitir „Heiðarkindur” og er eftir Sigrúnu Lilju Einarsdóttur listakonu og stórsnilling í Laugarási.

Ég skakklappaðist út á pall hérna sunnan við húsið snemma í morgun; stafalogn, þung og mikil brimhljóð frá sjó, gæsagarg af nærliggjandi tjörn og jörðin héluð. Hafi kartöflugrösin ekki verið fallin nú þegar eru dagar þeirra taldir, haustið er komið með sinni andgufu, morgunkulda og berjabláma. Mér varð hugsað til bróður míns og vina sem í birtingu lögðu á hesta sína fjarri mannabyggðum, settu nesti dagsins í hnakktöskur og hertu ólar; höm á pollum, hestar og menn morgunstirðir. Í dag og næstu daga verður smalað, markmiðið að koma hverri einustu kind í rétt, sama hvernig viðrar og gengur því að réttadagurinn er fasti: hann er fyrirfram ákveðinn og verður ekki hnikað úr þessu.

Kannski raula þeir þessa vísu sem við lærðum norður í Húnavatnssýslu fyrir þrjátíu árum eða svo og er eftir Jakob Jónatansson, ort í orðastað fjallkóngs:

Kominn er dagur,
mun því mál að matast og halda af stað.
Drekkið þið piltar dagsins skál
og dundið ei neitt við það.
En gangið ei saman greyin mín,
þó geri þoku og él,
gangnamenn eiga að gæta sín
og gleyma ekki að smala vel.

Og svo verður réttað, fyrst við Skaftholt og svo við Reyki á Skeiðum. Nú bregður hins vegar nýrra við: vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar er ekki í boðið fyrir aðra en fyrirfram ákveðna einstaklinga af hverjum bæ að fara í réttir. Þetta eru lög og ber að virða.

Vilji fólk upplifa réttastemmningu er reynandi að elda kjötsúpu, fara í lopapeysu í sturtu og síðan í eltingaleik, syngja loks ættjarðarlög af fullum krafti í svölu haustlofti þegar kvölda tekur. Eða hvað annað sem fólki dettur í hug, alveg óþarfi að láta sér leiðast.

Ég er ekki viss um að bændur og búalið sakni endilega mannmergðarinnar í réttunum, kannski gengur þeim bara betur við verkin núna.

Stemmningin býr í höfði hvers manns, Tungnamenn skemmtu sér til dæmis konunglega í fjárlausum réttum þegar riðan gekk yfir, það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi.

Góðar stundir.

Facebook ummæli