Nýtt merki Íþróttafélagsins Hamars var afhjúpað á fyrsta fundi nýrrar stjórnar í lok mars. Efnt var til samkeppni á síðasta ári og tóku íbúar Hveragerðis þátt í gegnum heimasíðu bæjarins. Einnig var leitað til Hönnunarmiðstöðvar Íslands og nemenda Grunnskólans í Hveragerði.

Eldra merki Hamars var hannað af Sveini Steindórssyni árið 1995, sem þá var 11 ára gamall nemandi í Grunnskólanum. Því fannst fráfarandi stjórn Hamars tilvalið að nemendur fengju að spreyta sig aftur á nýju merki en að þessu sinni var það ekki nemandi sem varð hlutskarpastur.

Sigurvegari í keppninni var Þorsteinn T. Ragnarsson. Hann hefur unnið að hugmyndinni í töluverðan tíman en vildi koma því á framfæri að konan hans ætti heiður af henni og endanlegri útfærslu.  

46 tillögur bárust bæði á tölvutæku formi sem og frumteikningar. Dómnefnd skipaði fráfarandi aðalstjórn Íþróttafélagsins Hamars, Fulltrúi frá Hönnunarmiðstöð Íslands, fulltrúi HSK og Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðisbæjar. Guðríður Aadnegard formaður HSK veitti verðlaunahafanum jafnframt 50 þúsund króna verðlaunafé fyrir fyrsta sætið.

Í umsögn dómnefndar segir:
Nýja merki Hamars heldur í uppruna eldra merkis með sama formi og letri og áður. Það hefur sterka tilvísun í heilsu- og blómabæinn Hveragerði. Í staðinn fyrir hlaupandi mann undir fjalli má nú sjá sex túlípana sem teygja sig til sólar upp úr grænum bikar. Túlípanarnir tákna hér allar deildir Hamars, nýtt upphaf og blómlegan vöxt. Bikarinn táknar sigra og verðleika en græni liturinn er vísun í heilsu og náttúrufegurð í kringum bæinn.

Ekki eru allir Hamarsmenn sáttir við merkið og hefur fyrirliði kvennaliðs Hamars, Dagný Rún Gísladóttir beðið um að þessi ákvörðun verði endurskoðuð og hefur Facebook síða knattspyrnudeildarinnar hreinlega logað síðan í fyrradag þegar merkið var afhjúpað.

Njörður Sigurðsson sagnfræðingur segir á Facebook síðu sinni að það hefði mátt bæta táknfræðina í merkinu og að hveragufan sem einkennir bæinn hefði frekar verið viðeigandi með vísun í kraftinn í móður náttúru heldur en túlípana sem flestir tengi við Holland og fjáraflanir Knattspyrnudeildar Hamars.  

Þórhallur Einisson formaður Hamars segir ánægjulegt hvað margir tóku þátt í þessu verkefni og hvað margar góðar tillögur bárust. Það hefði verið mjög erfitt að velja á milli þeirra en dómnefndin sé ánægð með útkomuna. „Íþróttafélagið verður 30 ára á næsta ári og þá verður nýja merkið komið á allan búnað og fatnað allra deilda. Vonandi getum við þá haldið glæsilega afmælishátíð og boðið öllum bæjarbúum að fagna þessum tímamótum með okkur, sameinuð undir nýju glæsilegu merki“ segir Þórhallur að lokum.  

Búið er að setja merkið upp á íþróttahúsið við Skólamörk og framan á aðstöðuhúsið við Hamarshöll ásamt því að vera komið á verðlaunavegginn þar inni. Merkið verður einnig aðgengilegt fyrir deildir Hamars í prent- og vefútgáfum á www.hamarsport.is.

Þórhallur Einisson formaður íþróttafélagsins Hamars og Sandra Björg Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri við nýja ljósaskiltið í aðstöðuhúsi Hamars við Hamarshöll.
Mynd: hamarsport.is
Guðríður Aadnegard formaður HSK óskar Þorsteini til hamingju. Mynd: hamarsport.is

Facebook ummæli