Hamar, sem kom af miklum krafti inn í Mizunodeildina í haust, hafði enn ekki spilað fyrir framan áhorfendur á heimavelli sínum en liðið fékk loks að gera það í kvöld. Hvergerðingar höfðu unnið fyrri leik sinn gegn Álftanesi auðveldlega og var seinni leikurinn aðeins formsatriði fyrir heimamenn.

Ekkert óvænt gerðist í fyrstu hrinunni þar sem að Hamar valtaði yfir gestina og vann 25-14. Ekki skánaði staðan í annarri hrinu þar sem Hamar vann 25-11 en í þriðju hrinu gekk aðeins betur hjá Álftnesingum. Þeir misstu þó dampinn undir lokin og Hamar vann 25-18.

Hamar vann leikinn því sannfærandi, 3-0, og fer áfram í undanúrslit eftir að hafa einnig unnið fyrri leikinn á sunnudag 3-0.  Í undanúrslitum mæta Hamarsmenn Vestra sem vann Aftureldingu einnig 2-0.

Fyrri leikurinn fer fram á Ísafirði á sunnudag en heimaleikur Hvergerðinga er á miðvikudag klukkan 19:00 og þá skýrist hvort Hamar mun berjast um Íslandsmeistaratitilinn.

Facebook ummæli