Um mánaðarmótin október – nóvember ár hvert hafa Grundarheimilin þrjú boðið starfsmönnum sínum til kvöldverðar (áður fyrr kvöldkaffis).  Þetta hefur verið í tengslum við foreldrakaffi á Grund og afmælisdag Grundar sem er 29. október. Hafa þessar kvöldstundir verið vel heppnaðar að mínu mati og góður vettvangur til að hitta starfsfólkið utan hefðbundins vinnutíma og njóta góðra veitinga saman.  

Á þessum kvöldum hef ég verið þeirrar ánægju aðnjótandi að veita fjölmörgum starfsmönnum Grundarheimilanna starfsaldursviðurkenningu. Lítið umslag þar sem þakkað er fyrir tryggð við Grundarheimilin í starfi 5, 10, 15 ár og svo framvegis. Minnir að Sjana í þvottahúsi Grundar hafi starfað einna lengst hjá okkur, í rúmlega 60 ár. Og svo auðvitað afi minn Gísli Sigurbjörnsson, sem var ráðinn tímabundið í stöðu forstjóra Grundar, frá 1934 – 1994 😊

Þetta árið eru það óvenju margir starfsmenn sem fagna starfsaldursafmæli eða 76 alls.  Helsta skýringin er sú að Mörkin fagnar 10 ára afmæli í ár og af þessum 76 eiga 28 starfsmenn 10 ára starfsafmæli í Mörk.  Alls eiga 37 starfsmenn Markar afmæli, 24 á Grund og 15 í Ási.  Og samtals hafa þessir frábæru starfsmenn unnið hjá Grundarheimilunum í 895 ár.  Sem er bara alveg hellingur af árum. Hefur sjaldan verið jafn mikill árafjöldi og ég er mjög stoltur af því.

Í ár verða þessi starfsmannakvöld því miður ekki, vitum öll af hverju. Viðurkenningunum verður komið til þeirra sem fagna starfsaldursafmælum á næstu dögum. Með þessum orðum óska ég þeim öllum innilega til hamingju með starfsaldursafmælið og þakka jafnframt fyrir vel unnin störf, með von í brjósti að ég fái að afhenda þeim annað umslag eftir fimm ár.

Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Facebook ummæli