Elvar og Laufey með Grýlu, fyrsta jólabjórinn úr Hveragerði.

Þær skemmtilegu fréttir voru að berast Krummanum, að í dag föstudag, 20 nóvember, verður í fyrsta sinn í sérvöldum vínverslunum landsins, þar á meðan hér í Hveragerði og á Selfossi, fáanlegur handverksbjór úr Hveragerði.

Ölverk brugghús, sem er eitt 22 handverksbrugghúsa sem staðsett eru víðsvegar um Ísland, hóf starfsemi sína vorið 2017 og hefur síðan þá framleitt úrvalsbjór og eldbakaðar pizzur við góðan orðstýr gesta hvaðanæva úr heiminum. Sérstaða brugghúsins er einstök á heimsmælikvarða en brugghúsið treystir á jarðhita í sínu framleiðsluferli. Bruggmeistari brugghúsins er Elvar Þrastarson en eigendur brugghússins er þau Elvar Þrastarson, Laufey Sif Lárusdóttir og Ragnar Karl Gústafsson.

Hingað til hefur bjórinn frá Ölverk einungis verið fáanlegur á samnefndum veitingarstað þeirra hér í Hveragerði en nú er Ölverk komið í útrás. Í upphafi ársins 2020 fjárfesti Ölverk í nýjum og fullkomnum átöppunarbúnaði og eru nú í fyrsta sinn byrjað að tappa bjór á dósir. Það eru nokkrar bjórtegundir væntanlegar á markað frá brugghúsinu en fyrsti bjórinn sem fer í almenna sölu er jólabjórinn Grýla. Nafn bjórsins er óður til Grýlu sem er, eða var goshver, í Hveragerði en einnig ein alræmdasta tröllskessa Íslands og móðir jólasveinanna þrettán.

Umbúðirnar eru táknrænar fyrir hveralandslagið í kringum Hveragerði og hitann í jörðinni sem hér kraumar, en umbúðirnar voru hannaðar af auglýsingastofunni Cirkus. Grýla er þægilegur millidökkur hátíðarbjór með hlynsyrópi, kanil og rúsínum.

Að koma bjór á markað og í verslanir ÁTVR er ekki einfalt ferli og þarf bjórinn og umbúðirnar að fara í gegnum strangt regluverk áður en varan fær samþykki. Það verður spennandi að sjá hvað bjóráhugamenn landsins hafa að segja um Grýlu og það sem koma skal frá Ölverk, en Elvar er þekktur fyrir að vera óhræddur að fara sínar eigin leiðir og prófa nýjar uppskriftir.

Krumminn óskar Ölverk innilega til hamingju með þennan stóra áfanga og hvetur Hvergerðinga til að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum á næstunni.

Ölverk á instagram.   Ölverk á Facebook.

Grýla á leið í Vínbúðina.

Facebook ummæli