Stóri plokkdagurinn var á laugardag og tóku Hvergerðingar sig til og hreinsuðu bæinn sinn. Það var gaman að sjá hvað margir tóku þátt og deildu með okkur myndum. Fólk hittist við Lystigarðinn við Fossflöt klukkan 10 og skipti með sér verkum og bauð Hveragerðisbær upp á hressingu í lokin. Hópur Veraldarvina hjálpaði til í plokkinu en það eru miklir dugnaðarforkar sem vinna núna á HNLFÍ.
Íbúar voru kvattir til að taka til í görðum sínum eða næsta nágrenni og lék veðrið við alla sem tóku til hendinni. Fjölmargir tóku með sér ruslapoka í göngutúr dagsins í kringum bæinn og var greinilega kominn tími til hirða upp það sem snjórinn hefur verið að fela í vetur. Golfklúbbur Hveragerðis var líka með sinn árlega vinnudag á laugardaginn og var mætingin alveg frábær en þar var ekki bara plokkað heldur líka tyrft, rakað og hellulagt og auðvitað spilað golf í lok dags.


Forsíðumynd: Bryndís Ragnarsdóttir

Facebook ummæli